Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

Smásögur

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND



BARA KERTI OG SPIL.
Höfundur Svanur Gísli Þorkelsson
Endurritað í des. 1995.

Það var aðfangadagur jóla. Húsið nötraði af urri frá ryksugu og
hrærivéla-mótorum í bland við jólasálmana í útvarpinu. Þeir félagarnir
Benni og Einsi sátu inni í herbergi Benna og hámuðu í sig Mackintosh og
reyktu. Benni hafði stolið stórri dollu af þessu gómsæta gúmmulaði, frá
mömmu sinni, fyrr um morguninn, úr skápnum í þvottahúsinu sem var úttroðinn
af alkyns niðursuðudósum og sælgæti sem faðir hans hafði komið með heim úr
síðustu siglingu. Samkvæmt mömmu Benna átti allt sem í skápnum var að
borðast á jólunum. Alla vega var það viðkvæðið, þegar Benni bað um
eitthvað úr skápnum. Jæja jólin voru hvort eð er svo til komin, hugsaði
Benni um leið og hann stakk dolluni inn á sig og laumaðist með hana inn í
herbergið. Skömmu síðar birtist svo Einsi. Heima hjá honum var allt á
öðrum endanum, og ástandið öllu verra en venjulega því allir gríslingarnir,
bræður hans og systur voru inni og létu eins og sérþjálfaðir terroristar um
alla íbúðina á meðan mamma hans reyndi án árangurs að hirða upp eftir þau
draslið. Einsi var því dauðfeginn að komast yfir til Benna, sem átti sitt
eigið herbergi þar sem þeir gátu reykt í friði og spjallað saman.
Einsi og Benni voru vinir, og höfðu lagt lag sitt saman frá því að þeir
mundu eftir sér. Fyrstu árin áttu þeir heima í sömu blokk, en svo fluttu
foreldrar Benna í einbýlishús og nú þegar þeir voru komnir vel á fimmtánda
ár duldist hvorugum hversu mikill munur var í raun og veru á högum þeirra,
þó þeir mættu ekki hvor af öðrum sjá í öllum frístundum. Ef þeir hefðu verið að
hittast núna í fyrsta sinn hefðu þeir áreiðanlega ekki orðið eins góðir
vinir og raunin var á. Á meðan að foreldrar Einsa bjuggu enn við ómegð og
fátækt í lítilli blokkaríbúð, höfðu foreldrar Benna efnast. Þau höfðu efni
á því að senda einkason sinn í einkskóla samtímis því að Einsi gekk í sinn
hverfisskóla. Benni fék úthlutaða vasapeninga vikulega, Einsi átti aldrei
aur. Samt var smekkur þeirra í klæðaburði og tónlist áþekkur, því báðir
voru þeir eins pönkaðir og þeir þorðu að vera án þess að eiga það á hættu að
gert væri að þeim gys. Þeir hlustuðu báðir aðeins á þungarokk og gáfu skít
í allt sem hét hipphopp, house eða rapp. Reyndar var það stórfurðulegt,
þegar tillit er tekið til þess hve ákaft þeir reyndu að árétta sjálfstæði
sitt með klæðaburði sínum og töktum, hversu ákaflega líkir þeir voru öðrum
unglingum á sama reki.
- En þarna sátu þeir sem sagt, með gúlana fulla af gotti og reyktu úr Camel
pakkanum hans Einars. Þrátt fyrir öll blankheitin, æxluðust mál
einhvernveginn alltaf á þann veg að það var Einsi sem alltaf átti fyrir
sígarettum. Báðir voru þeir orðnir of gamlir, eða of cool, til að sýna
óþreyju eftir að jólahátíðin gengi í garð. Báðir búnir að tapa hinni
barnslegu eftirvæntingu, sem bundin er við góðan mat , falleg ný föt,og
fjölmarga litskrúðuga pakka sem komið er fyrir undir upplýstu jólatré.
"Veistu hvað þú færð frá þeim gömlu?" spurði Einsi um leið og hann lokaði
Sippónum og reyndi um leið að gera hringi. "Blessaður, það verður
eitthvað ferlega ömurlegt eins og venjulega. Einhver helvítis jogginggalli
eða eitthvað álíka hálfvitalegt" svaraði Benni. "Ég þoli ekki mjúka
pakka" sagði Einsi. "Á öllum jólum sem ég man, hef ég ekki fengið annað en
ógeðslega mjúka pakka, nema þegar ég fékk smokka-pakkan frá þér í fyrra."
"Þeir hafa nú kanski orðið mjúkir á endanum" svaraði Benni og glotti.
Einsi fattaði ekki brandarann strax, en svo fór hann allt í einu að hlægja,
þessum einkennilega hlátri sem mútur á byrjunarstigi valda, hann hljómar
eins og verið sé að starta Skóda í fimmtán stiga gaddi.
Þeir héldu áfram að masa um ömurlegar jólagjafir sem þeir höfðu fengið í
gegnum árin og gerðu að þeim óspart grín. Tíminn leið, Mackintosh dósin
tæmdist og sígarettu reykurinn varð þéttari í herberginu. Klukkan var farin
að ganga sex þegar allt í einu var bankað á herbergishurðina og hún síðan
opnuð. Í gættinni byrtist andlit móður Benna . "Benni minn, ætlarðu
ekki að fara að klæða þig fyrir matinn? Þarf Einar ekki að fara að tygja
sig heim? Voðaleg reykingafýla er þetta. Opniði nú glugga strákar." Svo
steig hún inn í herbergið og byrjaði að bjástra við að opna gluggan sjálf.
Einsi greip leðurjakkan sinn og stóð á fætur. "Ég sé þig á morgun, hringdu
í mig í kvöld og segðu mér hvað þú fékkst." Svo drap hann í sígarettunni,
krumpaði tóman pakkan og henti honum í barmafullan öskubakkan. Aldrei
þessu vant, fylgdi Benni vini sínum nú til dyra, og horfði um stund á eftir
honum út í létta snjódrífuna. Helvíti, hugsaði hann með sér, ég gleymdi að
kaupa handa honum jólagjöf, jæja ég geri það bara seinna.
Aðfangadagskvöld gekk í garð á heimili Benna með kalkúnilm og grenilykt um
allt húsið, jólamessu á sjónverpsskerminum , uppljómaða stofu og veglega
skreytt jóltré í henni miðri, sem samt varla sást í fyrir pakkahrúgu sem
bókstaflega flaut út um allt stofugólfið.
Þegar búið var að troða því næst ósnertum kalkúninum inn í ísskáp ásamt
megninu af fjölbreyttu beðlæti. og setja óhreina diska og föt í
uppþvottavélina, réðust Benni og foreldrar hans á pakkahrúguna. Þau rifu
upp pakkana einn af öðrum og stöfluðu innihaldi þeirra við hlið sér.
Móðirinn hafði orð á því að þau þyrftu að hraða sér, því von væri á
foreldrum hennar í stutta heimsókn ásamt honum Þórði móðurbróður hennar, sem
dúkkað hafði skyndilega upp á heimili gömlu hjónanna og gert sig líklegan
til að dveljast hjá þeim um jólin. Benni hafði aldrei hitt þennan Þórð,
aðeins heyrt af honum einhverjar furðu sögur sagðar í hvíslingum. Benni
velti því fyrir sér hversvegna fólk talaði alltaf í hvíslingum þegar það
ræddi um fólk sem var veikt eða skrítið.
"Hann er svo undarlegur í háttum hann Þórður" heyrði Benni móður sína eitt
sinn hvísla," að ég held að engin kona hafi þýðst hann".
Benni var í óða önn að flytja góssið sem hann fékk í jólagjöf úr stofunni
inn í herbergið sitt, þegar að dyrabjallan glumdi. Benni fór til dyra en
varð svo að hörfa aftur inn í forstofuna því gangurinn fyllist af jólapökkum
sem móðir hans og faðir hófu strax að ferja inn í stofuna. "Gleðileg jól öll
sömun," söng amma hans og svo tóku við faðmlög og varalitur á báðar kinnar.
Aðeins Þórður stóð í fordyrinu, án þess að segja orð og beið eftir því að
sér yrði boðið inn. Hann var teinréttur örugglega tveggja metra hár, með
brúnan flókahatt á höfði og í síðum brúnum frakka. Benni kinkaði til hans
kolli og forðaði sér svo aftur inn í stofuna. Hann beið eftir að masandi
fólkið kæmi á eftir honum en það gerðist ekki í bráð. Aðeins Þórður byrtist
í stofudyrunum. Benni gaut til hans augunum og velti því fyrir sér hvort
maðurinn væri vangefinn eða bara undarlegur. Þórður sem hvorki hafði farið
úr frakkanum eða skónum né tekið af sér hattinn. Hann stóð bara og starði
um stund á Benna. Benni tók eftir því hvernig snjórinn á skóm Þórðar
bráðnaði og lak ofan í þykkt ullarteppið á stofunni. "Hann er stórskrýtinn
hugsaði Benni. "Þú munt vera Benedikt" sagði Þórður allt í einu. Benni
hrökk næstum því í kút. Rödd Þórðar var svo rám og djúp að hún minnti
Benna helst á röddina í Axel Rose þegar hann spilaði plöturnar hans hægt
aftur á bak í leit að földum skilaboðum. "Já ég er Benni" svaraði hann svo.
" Ég heiti Þórður Sumarliðason og er bróðir hennar ömmu þinnar, komdu sæll
Benedikt" rumdi í kallinum um leið og hann steig inn í stofuna í átt að
Benna með útrétta hendi. Benni sem ætlaði að fara að heilsa Þórði þrátt
fyrir að honum væri brugðið, kippti að sér hendinni ósjálfrátt þegar hann sá
hendi Þórðar. Hún var náhvít og þakin einhverju ókennilegu hreistri.
Þórður tók auðvitað eftir viðbrögðum Benna, því hann dróg að sér hendina og
settist um leið niður á stól við hlið hans tók niður hattinn og sagði.
"Fyrigefðu, ég gleymi alltaf þessu árans exemi, en það er víst ekki
smitandi". Benni horfði forviða á Þórð, því undan hattinum kom í ljós
þykkt grátt og sítt hár sem bundið var í tagl í hnakkanum. "Þetta er
sannarlega furðulegur fýr" hugsaði Benni en þorði ekki að segja neitt.
Ómurinn frá samræðum ömmu hans og afa við foreldra hans barst nú fram af
ganginum og að herbergi Benna.
Ömmunni var víst nóg boðið við að sjá kjaftfullan öskubakkan á borðinu í
herbergi hans, því hún kom nú ásamt hinum býsnandi inn í stofuna. Um leið
og hún birtist stóð Þórður á fætur og sagði með drunandi hárri röddu sem
fékk alla til að þagna. " Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta
kerti og spil. Sú var nú tíðin að það þóttu ágætar gjafir. Nú þykja ekkert
gjafir nema þær séu tugþúsunda virði, gerðar úr plasti og hægt sé að stinga
þeim í samband. Aldrei hafa jólin verið eins vel upplýst og á heimilinum
nú til dags og samt hefur aldrei fyrr ríkt á þeim jafn mikið myrkur og nú."
Þegar Þórður þagnaði, settist hann aftur niður og horfði spekingslega út í
loftið. Eldra fólkið starði á hann agndofa eins og það væri að bíða eftir
einhverju meiru, en ekkert kom. Benni heyrði svo afa sinn pískra eitthvað
um að nú væri sér nóg boðið og ömmu sína þagga niður í honum og hefja síðan
aftur taut sitt um óhollustu reykinga.
Benni ákvað nú að hringja í Einsa og brá sér í símann. Ásta elsta systir
Einsa svaraði.

Halló.
Hæ Ásta, er Einsi heima spurði Benni.
Í símanum varð vandræðaleg þögn.
Þetta er Benni, má ég tala við Einsa ítrekaði Benni.
Heyrðu Benni, veistu ekki hvað kom fyrir, veistu ekki að Einar er á
spítala? svaraði Ásta.
Á spítala, hváði Benni vantrúaður. Hvað er hann að gera á spítala?

Hann lenti undir bíl á leiðinni frá þér. Læknarnir segja að hann sé með brotinn
hrygg, þeir segja að.....
Hvaða helvítis lygi er þetta í þér Ásta, leyfðu mér að tala við Einsa eða
þú skalt hafa verra af, nördið þitt, hrópaði Benni í síman.
'Eg er að segja þér alveg satt, heyrði hann Ástu segja sem var nú byrjuð
að vola. Mamma og pappi eru bæði á sjúkrahúsinu og ég er ein hérna heima
með krakkana. Ég skal biðja mömmu um að hringja í þig þegar þau koma heim.
Bless.
Benni lagði tólið á og horfði stjarfur fram fyrir sig. Án þess að segja orð
við masandi fólkið í stofunni fór hann inn í herbergið sitt, rótaði í
öskubakkanum þar til hann fann stóran stupp sem hann kveikti síðan í. Hann
tók ekki eftir Þórði sem hafði staðið upp úr stól sínum og komið á eftir
honum. Í annanri höndinni hélt Þórður á litlum pakka sem vafin var inn í
brúnan umbúðarpappír. Þennan pakka lagði Þórður á borðið í herbergi Benna
og sagði svo um leið og hann fór út.

Handa þér drengur minn, handa þér.
Benni horfði orðlaus á eftir Þórði og brátt heyrði hann ömmu sína og Afa
kveðja. Brátt voru þau á braut og Þórður með þeim. Nokkrum mínútum síðar
kom mamma hans inn til hans.

Þú varst ekki mikið að kveðja afa þinn og
ömmu, eða þakka þeim fyrir allar gjafirnar, lét hún móðinn mása. Svo rak
hún augun í pakkan á skrifborðinu og spurði.

Hvaða pakki er þetta, ekki kom Þórður með þetta?

Benni leit upp og svaraði:

Mamma, Einsi lenti í bílslysi í kvöld þegar hann fór frá okkur. Hann liggur á sjúkrahúsi. Ásta
sagði að hann væri með brotinn hrygg.
Hvað segirðu barn, með brotinn hrygg. Þetta er hræðilegt, að lenda í
bílslysi á sjálfum jólunum. Það á ekki af þessari fjölskyldu að ganga,
eitt eftir annað, hvílíkt ólán.

Meira heyrði Benni ekki af því sem móðir hans sagði, því síminn hringdi og hann þaut upp til að svara honum. Í símanum var móðir Einsa sem með mæðulegri röddu staðfesti allt sem Ásta
hafði sagt honum, og upplýsti jafnframt að Einsi væri á gjörgæslu og
berðist nú fyrir lífi sínu.
Að símtalinu loknu fór Benni aftur inn til sín og læsti að sér. Hann lét
nýja geisladiskinn á geislaspilarann sinn og lagðist upp í rúmið sitt.
Einhverntíma seint um nóttina sofnaði hann loksins og svaf langt fram á
jóladag. Þegar hann vaknaði aftur var gjöfin frá Þórði gamla það fyrsta
sem hann rak augun í. Hann reis upp við dogg og teygði sig eftir pakkanum
og reif hann upp. Í ljós kom hvítur kertisstúfur og gamall og lúinn
spilastokkur. Hann brosti með sjálfum sér að þessum einföldu munum, en
mundi svo eftir Einsa og hentist á fætur og í símann. Það var móðir Einsa
sem svaraði.

Nei, ekkert nýtt að frétta, nema að myndataka staðfesti að
hann væri mænuskaddaður og að hann lægi enn á gjörgæslu.

Benni lagði á og fór inn í eldhús til að fá sér Chereeos. Foreldrar hans voru ekki heima,
líklega farin til kirkju. Hann kveikti á sjónvarpinu, en slökkti fljótt á
því aftur. Honum datt í hug að hringja í einhverja félaga sína en kom sér
ekki til þess. Loks ákvað hann að reyna að taka til í herberginu sínu og
koma einhverju af nýja dótinu sem hann hafði fengið í jólgjöf, fyrir.
En honum varð ekkert úr verki, svo hann settist niður á gólfið, reif upp
spilastokkinn sem hann hafði fengið frá Þórði og ætlaði að fara leggja
þennann eina kapal sem hann kunni. Um leið og hann náði spila-stokknum
úr, kom í ljós samanbrotið bréf. Hann fletti bréfinu í sundur og las.
Hann las bréfið þrisvar yfir áður en hann áttaði sig á innihaldi þess, þó
það væri ritað með skýrri skrift. Þegar hann loks skildi bréfið, lá við að
hann færi að skellihlægja. Hvílíkt bull. Þessi Þórður var sko alveg
snargeggjaður ef hann hélt að einhver tæki þessa vitleysu alvarlega. Samt
greip hann bréfið aftur sem hann hafði krumpað saman í vantrú, og las það í
fjórða sinn.
Kæri Benedikt.
Ég veit að þér þykir eflaust lítið til gjafar minnar koma í samanburði við
allar hinar sem ég er vissum að þú færð. Samt er hún í höndum þess sem með
hana kann að fara ómetanlega verðmæt. Bæði kertið og spilin eru æfaforn
og þeim fylgir undra náttúra sem ég kann ekki að skýra. Ég get aðeins sagt
þér hvernig hún virkar. Náttúra kertisins er sú að hver sem horfir í loga
þess, læknast af öllum sjúkleika hversu alvarlegur sem hann kann að vera.
Spilin eru þess eðlis að ef þú leggur þau í hring fyrir einhvern, eða með
einhvern í huga, segja þau nákvæmlega til um æfi þess hins sama. Þeir
annmarkar eru á ofureðli beggja að þau er aðeins hægt að nota einu sinni á
hálfrar aldar fresti. Um þessar mundir eru rúmlega fimmtíu ár síðan
gripirnir voru notaðir síðast. Þá sá ég fyrir í spilunum framtíð mína og
hver átti að fá þessa gripi næst og hvenær.

Vertu sæll Benedikt.
Þórður Sumarliðason.

Þrátt fyrir hversu fáránlegt innihald bréfsins virtist Benna, fann hann hjá
sér ómótstæðilega löngun til að sannreyna það. Ef til vill voru það
kringumstæðurnar. Var það algör tilviljun að hann fékk þessa gjöf
nákvæmlega þegar hann þurfti svo sannarlega á henni að halda, ef að allt
reyndist rétt sem karlinn hafði skrifað. Úr huga hans hvarf aldrei
hugsuninn um að á sjúkrahúsi lá besti vinur hans fyrir dauðanum. Svo
hafði Þórður verið svo dularfullur. Hvað um það hugsaði Benni, það var svo
sem nógu auðvelt að sannreyna spilin. Hann hugsaði málið augnablik, tók
svo ákvörðun og lagði spilin í stóran hring á gólfið. Hann var varla búinn
að sleppa síðasta spilinu, þegar sitthvað fór að gerast og svo hratt að hann
varð að hafa sig allan við til að geta fylgst með. Á einhvern
undursamlegan hátt lyftust spilin frá gólfinu og í hverju spiliu sá Benni
svipmynd úr lífi Einsa. Hann sá hvernig móðir Einsa remdist við að koma
honum í heiminn, hvernig hann skreið um skítugt eldhúsgólfið í blokkinni
heima hjá sér, hvernig hann át sand úr sandkössum dagheimilisins, skítugur
og með hor í nefinu. Hann fylgdist með hvernig Einsi stækkaði og hvar hann
hljóp um göturnar klæddur í föt af systkinum sínum, stundum jafnvel af
Ástu, og loks sá hann sjálfan sig kynnast Einsa í barnaskóla. Benna varð
allt í einu ljóst hversu mikið Einsi þurfti að hafa fyrir hlutum sem honum
sjálfum þóttu auðveldir. Hann sá að Einsi byrjaði snemma að stela
peningum, hvar sem hann gat, til þess að endrum og eins þættst geta splæst,
og hvernig hann smá saman sætti sig við að hafa minna úr að moða en flestir
kunningar hans, að ekki sé minnst á Benna sjálfan. Að lokum sá hann Einsa
hlaupa út frá sér kvöldið áður, of seinan til að taka strætó, of blankan til
að taka leigubíl, of stoltan til að biðja um að sér yrði ekið. Hann sá
Einsa hverfa undir grænan upphækkaðan Cheroky jeppa og hvernig sippóin hans
þeyttist inn í húsgarð hinummegin við götuna og hverfa þar í skafl.
Síðasta spilið sýndi aðeins gráa móðu. Svo féllu spilin niður á gólfið í
eina hrúgu.
Benni sat á gólfinu og nötraði allur af geðshræringu. Hann var lengi að
jafna sig, en varð á sama tíma ljóst hvað hann varð að gera.
Eftir nokkra stund klæddi hann sig í flýti, stakk kertinu í vasan á
leðurjakkanum og hraðaði sér út.
Það var jóladagur og enga strætisvagna að fá. Benni hljóp við fót og
stefndi í átt að Borgarsjúkrahúsinu. Móður og másandi hratt hann upp
hurðinni á bráðamóttökunni. Bak við öryggisglerjað afgreiðsluborð sat
sloppklædd kona sem mændi á hann ósamúðarfullum augum. Benni reyndi að
útskýra í fljótheitum að hann þyrfti nauðsynlega að hitta vin sinn sem lægi
fyrir dauðanum á gjörgæsludeild og hann ætlaði að hjálpa honum.
Afgreiðslukonan blikkaði bara augunum og hristi höfðuðið. Nei, það kom
ekki til greina að hún hleypti honum inn þangað sem Benni lá. Jafnvel
foreldrar drengsins sagði hún höfðu aðeins fengið að líta til hans augnablik
í fylgd með lækni. Benna varð fljótt ljóst að þessari kellu yrði ekki
haggað. Hann var í þann mund að yfirgefa móttökuna, þegar að maður í
hvítum slopp byrtist fyrir innan afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við
afgreiðslukonuna sem Benni heyrði ekki vegna öryggisglersins. Eitthvað í
fari mannsins fannst honum samt kunnuglegt. Hann sá afgreiðslustúlkuna
kinka kolli til mannsins, og kalla síðan til hans.
"Heyrðu þarna drengur, læknirinn segir að það sé óhætt að þú komir innfyrir
í nokkrar mínútur." Svo þrýsti hún á hnapp sem staðsettur var úr sjónmáli
og dyrnar að bráðadeildinni opnuðust. Benni var ekki lengi að skjótast
innfyrir þar sem hann bjóst við að hitta lækninn. En hann var hvergi
sjáanlegur.
Benni hafði tekið eftir því á töflu í andyrinu að gjörgæslan var á annari
hæð sjúkrahússins. Í stað þess að bíða eftir lækninum ákvað hann að halda
þangað á eigin spýtur. Hann fann fljótt stiga sem lá upp á aðra hæð og
síðan dyr sem á stóð Gjörgæsla. Benni flengdi upp dyrunum og skautst inn
á gjörgæsluganginn, beint í flasið á holdugri hjúkrunarkonu sem riðaði við
og hefði eflaust dottið á efturendan ef Benni hefði ekki náð að grípa hana.
"Hvað ert þú að vilja hér ungi maður," spurði hjúkkan og togaði niður
sloppinn sem eitthvað hafði aflagast við áreksturinn. Benna kom ekkert til
hugar sem hljómað gæti sennilega í eyrum hjúkkunar svo hann lét reyna á
hálfan sannleikann. Hann fálmaði eftir kertisstúfnum og sýndi hjúkkunni og
sagði.
" Það eru jól, og vinur minn liggur hér fyrir dauðanum. Hann lenti í
bílslysi í gær og ég verð að fá að hitta hann. Ég ætla að kveikja á þessu
kert fyrir hann og..."
Konan brosti nú við Benna og sagði svo góðlátlega. Jæja góði, fylgdu mér
þá og ég skal sýna þér hvar hann liggur. Konan gekkk rösklega inn ganginn
og Benni á eftir. Innan nokkurra sekúndna stóð Benni við rúm vinar síns,
þar sem hann lá með lokuð augun og andaði óreglulega. "Kveiktu þá á kertinu
vinur" sagði hjúkkan, og svo skulum við bara koma. Ég skal svo líta eftir
því. " En hann verður að sjá logan svaraði Benni svolítið annars hugar en
áttaði sig svo og bætti við. "Ég á við að mér finnst eins og hann viti af
mér hérna en geti bara ekki opnað augun hjálparlaust. Getur þú ekki fengið
hann til að opna þau, þó ekki væri nema augnablik" Hjúkkan virtist klökna
við viðkvæmi Benna, því nú teygði hún sig yfir Einar og opnaði augnalok hans
með þumlunum. Samtímis kveikti Benni á kertinu. Kerisloginn flökti og
Benni tók eftir því hvernig hann speglaðist dauflega í sjáöldrum Einsa.
"Jæja, þá er þessu lokið" sagði hjúkkan og gerði sig líklega til að fara.
Hún lagði höndina á öxl Benna eins og til að stýra honum út.
"Má ég ekki sitja stundarkorn hérna einsamall við hlið hans"
Konan kinkaði kolli, og fór út. Benni settist niður á stól sem stól við
hliðina á rúminu og hugsaði með sér. Þannig var þetta þá, aðeins spilin
virkuðu, kertið var greinilega gagnlaust.
En svo tók hann eftir því að Einsi hreyfði fæturnar. Benni stóð upp og
leit framan í vin sinn. Einsi opnaði augun, leit á Benna og sagði:
"Hvar er ég".
Það tók Benna aðeins nokkur augnablik að útskýa í stórum dráttum fyrir Einsa
hvað hafði gerst, á meðan Einsi starði á hann gapandi. Þegar Benni
þagnaði, leit Einsi í kring um sig og spurði. "Hvar eru fötin mín. " Svo
stökk hann á fætur og fór að leita að þeim. Auðvitað voru engin föt í
herberginu, svo þeir ákváðu að fara fram á gang. Fyrir þeim vakti fyrst og
fremst að komast út, án þess að þurfa að útskýra hvað gerst hafði. Það var
alltof ótrúlegt hvort sem var, og læknarnir mundu örugglega vilja halda
Einsa á sjúkrahúsinu öll jólin, bara til að rannsaka hvað gæti hafa gerst.
Einar var bara klæddur í þunnan slopp sem opin var að aftan. Þeir komust
klakklaust út af gjörgæsludeildinni og voru í þann mund að leggja af stað
niður stigan, þegar stór brúnn frakki kom svífandi niður stigaopið. Benni
leit upp fyrir sig og sá hvar maðurinn í hvíta sloppnum sem hann hafði séð
niðri í móttökunni nokkru fyrr, stóð fyrir ofan þá og brosti. Svo snéri
hann sér við og Benni sá í hendingu að hann var með sítt grátt hár, bundið í
tagl í hnakkanum.
Einsi var ekki seinn að koma sér í frakkann á hlaupunum. Áður en varði
voru þeir komnir niður á fyrstu hæð og þeir stefndu beint á dyr sem merktar
voru Neyðarútgangur. Þeir spyrntu hurðinni upp og hlupu út í snjóinn sem
þyrlaðist upp undan fótum þeirra. "Hvert erum við að fara, ég drepst úr
kulda á löppunum ef ég fæ ekki skó" hrópaði Einsi móður af hlaupunum. "
Eigum við ekki bara að koma heim til mín," hrópaði Benni á móti," við getum
spilað soldinn póker ef þú nennir, ég fékk þessi fínu spil í jólagjöf".





Enter supporting content here