Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

Fiskisaga

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND

Gulli og Kolli

Veislan

Einu sinni var lítill gullfiskur sem hét Gulli.  Hann átti heima aleinn í lítilli holu á sjávarbotni.  Á hverjum degi þegar að Gulli vaknaði, fór hann af stað til að finna vin sinn, Kolla Kolkrabba  sem átti heima rétt hjá.

Saman voru þeir vanir að eyða dögunum í að synda og leika sér og líka að finna sér eitthvað að borða. Þeir vissu að það var öruggara fyrir þá að fara ekki langt frá holunum sínum, því að margar hættur leyndust í sjónum.

En dag einn brá svo að þeir fundu bara ekkert ætilegt í grenndinni við holurnar sínar, og þess vegna ákváðu þeir að hætta sér lengra í burtu en þeir höfðu nokkru sinni vogað sér áður. Sannleikurinn var sá að þeir voru báðir skíthræddir um að einhver stór fiskur kæmi og æti þá báða, og því syntu þeir um afara varlega og  skimuðu ákaft í kring um sig. 

Allt í einu sáu þeir stóran skugga líða yfir hafsbotninn og þegar þeir litu upp fyrir sig sáu þeir hvar stór hákarl synti rétt fyrir ofan þá. Stjarfir af hræðslu létu þeir sig sökkva alveg niður á botninn og vonuðu að ófreskjan mundi ekki taka eftir þeim. Þeir fylgdust með hákarlinum synda letilega áfram og þegar að þeir héldu að hann væri að fara, önduðu þeir léttar. En svo sáu þeir að hann snéri allt í einu við og stemmdi nú beint á þá. Þeir sáu að Hákarlinn var augljóslega mjög svangur og var eins og þeir að leita að einhverju að borða. Kolli Kolkrabbi byrjaði að grafa sig í sandinn eins og hann var vanur að gera þegar hann var mjög hræddur en Gulli reyndi að troða sér á milli tveggja lítilla steina sem hann fann rétt þarna hjá.

Á örskammri  stundu var Hákarlinn kominn að þeim. Þeir sáu greinilega að hann var með risastóran munn og í munnum voru ótrúlega stórar og oddhvassar tennur. 

 

Þeir voru báðir vissir um að nú mundi þessi ófreskja éta þá. “Góðan daginn” sagði hákarlinn þá allt í einu. “Ég heiti Halli Hákarl. Getið þið sagt mér hvar hún Frú Gaddaskata á heima. Ég var boðinn þangað í mat, en get alls ekki fundið út hvar hún á heima. Ég held að ég sé villtur í þokkabót.”

 

Gulli og Kolli litu hvor á annan. Þeir voru svo fegnir að vera ekki þegar komnir ofan í magann á hákarlinum að þeir fóru næstum að hlægja. “Nei því miður, sagði svo Gulli. En ég hef heyrt að skötur eigi heima á botninum og grafi sig í sandinn”. Hann Hafði varla sleppt orðunum þegar að eitthvað hreyfði sig í sandinum til hliðar við þá. Bæði Gulli og Kolli hrukku í kút. Og viti menn, upp úr sandinum rak Frú Gaddaskata hausinn.

Nú ertu þarna” sagði hún og horfði stórum augum á Halla Hákarl. Ég hélt að þú mundir bara alls ekki mæta. Og hverjir eru þessir gestir sem þú hefur boðið með þér? Frú Gaddaskata horfði spyrjandi augum á Halla. “Ehem, Þeir eru kannski ekki beint gestir mínir, ég villtist og þeir voru svo vinsamlegir að segja mér til vegar, “ svaraði Halli.

 

“Þá er nú alveg sjálfsagt að bjóða þeim að borða með okkur í þakkarskyni fyrir leiðbeiningarnar. Má ekki bjóða ykkur smásnarl með okkur drengir” sagði Frú Gaddaskata brosandi. Gulli og Kolli trúðu varla eigin augum, því nú blakað Frú Gaddaskata vænguggunum sínum stóru svo sandurinn þyrlaðist í burtu og í ljós komu allskyns krásir.

Seinna þegar þeir voru orðnir svo saddir að þeir gátu sig varla hreyft, og allur maturinn var búinn, þökkuðu þeir fyrir sig og kvöddu bæði Halla Hákarl og Frú Gaddaskötu með virktum, og héldu heim í holurnar sínar.

 Þeir steinsofnuðu um leið og þeir komu heim því þeir voru svo þreyttir eftir daginn.  En oft áttu þeir félagar Gulli og Kolli eftir að rifja upp þennan minnistæða dag þegar að þeim var boðið í veislu hjá stóru fiskunum þegar að þeir héldu að þeir mundu verða étnir sjálfir.

 

Köttur út í mýri, setti upp á sér stýri, úti er ævintýri.

 

Enter content here

Enter content here

Enter supporting content here