Flóttinn mikli
Ég flúði hana daga og nætur
um árana göng
upp klöngur hugans
og hjartans táradali.
Ég faldi mig
í flissi
og gellandi hlátri
á stökki milli hóla
og hæða vonar
en hraut um síðir
í tröllslegt gljúfur óttans.
Í fallinu niður í tómið
heyri ég fótatak hennar
jafnt og þétt.
Mig uppi dregur
skrefum þungum
án nokkurs flýtis
röddin sem hrópar
“Allt sem svíkur mig,
svíkur einnig þig”
Hetjan frá vatninu bláa
Úr votu skauti vatnsins bláa
reis ég nakinn og tær.
Hljótt upp úr móðunni
sem lagði af vatninu
steig ég fafur og skær
Vatnið sem ól mig
unni mér heitt.
Það iljaði mér
með andardrætti sínum
sem ljósálfar spunnu
í örfínan þráð og marbendlar ófu
úr dýrindis lín,
sniðu af kufl,
úr mistrinu skikkju
sem merlaði af
í hvítu mánaskini.
Svarrbláum nikrum
var beitt fyrir vöggu
úr mjallhvítum liljum
og sígrænu sefi
sem mettaði vit mín
með framandi angan.
Hún festist við föla
rekkjuvoð stjarnana
sem flökti á hvíslandi
földum vatnsins
er ofurmjúkt kysstu
mig á vangann.
Allar vættir vatnsins
vöktu yfir mér,
og vernduðu mig af mætti.
Þær gáfu mér glitrandi
gullin fræ Bráins
og dögg þá er draup
á miðju nætti.
Lagardísir
ljáðu mér brynju
herta í vafurloga,
sverð úr sólstöfum
sjöunda himins
og skjöld úr regnsins boga.
Þá röðull rann heitur
á heiðan himinn
og leysti í sundur
minn líknarbelg,
risu úr svelgnum
hvasstenntir drekar
sem kenndu mér töfra
og leyndir vatnsins.
Kyngi og seiðstafir
urðu mitt mál.
Dvergar krýndu mig
vorsmíði sinni
sem huldi mig brágeislum
dauðlegra manna.
Og æskan varð öll
að eilífri bernsku
og ómunatíð,
að draumi um hetju
sem vatnið bláa
gaf allt nema sál.
Hamar
Einhvern tíma um nóttina stóð hún upp úr rúmi sínu, gætti þess að vekja ekki bóndan og héllt síðan út í myrkrið.
Það sá enginn til hennar, þegar hún gekk í gegn um bæinn, sem leið liggur út á hamar en þar settist hún
niður á döggvota tó.
Hún starði um stund í kólguna sem dumbblá braut á klöppunum. Hún reyndi að hlusta á öldurnar sem bulluðu
ráðalausar við landið og höfðu stöðugt yfir hið augljósa, líkt og allir aðrir.
Upp yfir henni flögruðu mávar sem görguðu mæðulega eitthvað um hamingjuna sem finna mátti í affalli frá
fimmtán hundruð heimilum og dællt var út í sjó.
Svo stóð hún upp og fór úr skónum.
|
 |
Hús hlutanna
Húsgögnin hrópa
ásaka hvert annað
og afsaka sig um leið.
Og gömul klukka skrækir
dauðhreinsuðum rómi,
“allt er orðið un seinann”
Munirnir í stóra skápnum
eru algjörlega óðamála.
Umræðuefnið er einsemd.
Blómin sem grafin eru
í gluggakistunum
stynja rám af þorsta,
segjast þurfa ást.
Kröfur þeirra um hamingju
lýsa angistinni
og úr öllum skimaskotum
ómar sama orðið
aftur og aftur,
ég, ég ,ég.
Helförin
Börnin voru send
heim
úr skólanum
og
áttu ekki afturkvæmt
fyrr
en dauðasyndirnar sjö
voru
að fullu fyrirgefnar
allar með
tölu
Ein
Ein
ég geng hjá gerði
geisar
úti orrahríð
brast
á fyrr en varði.
Hér
er gamall garður
glufur
sem ég þekki
hvar
forðum ég geimdi gullin mín
Nístir
enn að norðan
nepjan
klónum læsir.
Kaldan
munda korðann.
Fennir
fljótt í sporin
fjarri
vindsins gnauði
ein
ég geng með Guði
Ó Hve
Ó hve ég vildi
að hjarta mitt væri
sem breiðgötur í borg
þar sem allar leiðir leiddu
rakleiðis til þín
En ég bý í rauðu
völundarhúsi
þar sem stígarnir breytast
og veggir færast til
Þegar
Þegar að slitrur hjartans
kveina
þegar að morgunroðinn hlær
Þegar að öll orðin hverfa
þegar að ég er engu nær
Þegar að ekkert skiptir máli
þegar að ekkert býður mín
Þegar að hún er að hugasa
annað
Þegar hún hverfur heim til
sín
Á gulu ljósi
Þetta hófst á gulu ljósi
sem von bráðar varð rautt
og rauðir sófar um bæinn
allan
fögnuðu og hlógu dátt
og sinntu engu aðvörunarorðum
ungra drengja
sem enn áttu skotfæri og
bombur
frá því á gamlárskvöld.
Hungur hjartans sem aldrei
verður satt,
hungur hugans læikt og fjallið
bratt,
hungur líkamans sem hvorutveggja
batt.
Illur
Frá háu hæðum sjálfsins fell ég hægt og hægt niður í hin dimmu djúp hverfuleikans, fell niður á hið dýrslega
svið og tíunda þar með röddu ruddans þau vandamál sem verða til vegna ónægrar þekkingar á vilja Guðs.
Hér
í tælandi ringulreið kauphallarinnar Hel engist ég í sjálfskapaðri kvöl með útteigða arma mína inn í hringiðu
móðu og misturs og reyni að grípa og halda afkáralegum vofum velgengni og valds.
Óuppfræddur um orsakirnar ómeðvitaður
um stefnuna ókunnugur í garðinum læt ég holan steininn nægja
|
 |
|
 |
|
|