Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND

Títla litla

 

Músarsaga eftir Svan Gísla Þorkelsson

 

Einusinni var pínulítil mús sem hét Títla. Títla átti heima í agnarlítilli músarholu í ganginum á ógurlega stóru húsi. Í húsinu bjuggu líka fínn maður og  fín frú sem átti fullt af saumadóti. Á kvöldin þegar Títla var búin að finna sér eitthvað að borða var hún vön að trítla sér inn í stofuna þar sem fína frúin geymdi allt saumadótið. Hana langaði mest af öllu til að leika sér að saumdótinu, en það var alltaf kyrfilega læst niður í kistil sem fína frúin hafði einusinni fengið í afmælisgjöf frá fína manninum.  Þess vegna lék Títla sér bara að gluggatjöldunum þangað til hún var orðin þreytt. Kvöld eitt þegar Títla litla kom inn í stofuna blasti við henni undarleg sjón

Saumadótið var allt út um allt í stofunni og það var búið að stinga einhverju hvítum staut ofan í gatið á einu tvinnakeflinu og efst á stautinum var þráður. Þetta fannst Títlu litlu afar forvitnilegt. Hún hafði reyndar oft áður  séð kerti., en aldrei komist í námunda við eitt slíkt þegar að logaði á því. Við hliðina á tvinnakeflinu lá eldspíta og eldspítustokkur.  Títla  stóðst ekki freystinguna.  Hana hafði alltaf langað til að vita  hvernig eldur væri á bragði. Hún tók eldspítuna, dró hana eftir brúna hrjúfa fleti eldspítustokksins og var því næst eldspítuna að kertinu. Fyrst gerðist ekkert, en hún reyndi þá aftur og þá kviknaði loksins á eldspítunni. Títla bar  logann að kertinu og það kviknaði strax á því og loginn dansaði á kveiknum. Svo reyndi hún að stökkva upp í logann. Um leið og hún lenti fann hún slæma brunalykt. Hvað hafði gerst. Þetta var eitthvað skrítið. Við að koma svona nálægt eldinum höfðu nokkur af fínu veiðihárunum sem Títla hafði á nefinu sviðnað. Títla var ekki alveg viss um hvernig hún átti að bregðast við en fann að þessi eldur gat verið verulega hættulegur. Skyndilega heyrði Títla að dyrnar á stofunni sem áður höfðu verið opnar til hálfs, galopnuðust. Í dyrunum stóð fína frúin heldur ólundarleg á svip.

 Títlu brá svo mikið að hún tókst á loft og vissi ekki fyrri til en að hún var lent ofan í fingurbjörg sem stóð þarna nærri. Með skjálfandi rófuna kíkti hún varlega upp úr fingurbjörginni.

Konan hafði greinilega ekki tekið neitt eftir henni, En hún gekk sveiandi að kertinu og slökkti á því með því að blása rösklega á það. Hún tautaði eitthvað um kæruleysi bónda síns og  settist síðan í stól og byrjaði að hekla.  Hvað er konan að gera hugsaði Títla litla með sér. Hún hafði heldur aldrei séð neinn hekla fyrr. Títla beið heila eilífð að henni fannst eftir því að konan yrði þreytt og færi að sofa, en fylgdist grannt með hvernig konan fór að. En Loks stóð konan upp, slökkti á kertinu og svo á stóra ljósinu sem hékk í loftinu og fór út úr stofunni. Fljótlega heyrði hún  fínu frúna ganga upp stigann upp í svefnherbergið sitt.Títla var alveg ákveðin í að kanna betur hvað konan hefði verið að gera með þráðinn og prjóninn. og sjá hvort hún gæti þetta ekki alveg líka. Prjónninn var svo stór og þungur að hún gat varla lyft honum. En smá saman tókst henni samt að valda bæði bandi og prjóni. Fljótlega var hún farinn að hekla á miklum hraða. Hún reyndi að gera eins og hún hafði séð fínu frúna gera, en það tókst ekki alveg því munstrið sem hún heklaði var alltaf miklu fínlegra en það sem frúin hafði gert.

Þegar að Títla litla hafði heklað næstum alla nóttina fann hún að hún var orðin svo þreytt að hún ákvað að drífa sig í háttinn. Hún leit á það sem hún hafði verið að hekla og sá að úr hafði orðið dýrindis blúnda.  Hún flýtti sér ánægð inn í litlu holuna sína og sofnaði vært en vaknaði samt snemma um morguninn við háværar samræður í stofunni. Hún fór á fætur og kíkti varlega inn í stofuna. Stofan var full af  konum sem voru í heimsókn hjá fínu frúnni. Þær sátu allar í hring og dáðust að fínu blúndunni sem hún hafði verið að hekla um nóttina. Fína frúin lék á alls oddi og var að segja frá því hvernig hún hefði ekki getað sofnað kvöldið áður og því ákveðið að hekla svolítið fram heftir kvöldi. Hún hafi verið sérstaklega vel upp lögð, enda útkoman eftir því. Títla litla var mjög ánægð með að heyra hversu vel konunum líkaði við handverk sitt og ákvað að svara spurningunni sem brann á allra þeirra vörum, hvernig var hægt að hekla svona fínlega. Hún stökk því galvösk fram á stofugólfið og síðan að hekluprjóninum og ætlaði að byrja að hekla og sýna þeim hversu auðvelt þetta væri nú. Um leið og allar konurnar sáu Títlu spruttu þær upp úr stólum sínum með miklum ópum og ólátum og stukku síðan upp í stólana baðandi út höndunum í allar áttir. Mús, Mús, hrópuðu þær milli öskranna. Títlu var svo brugðið við þessi ósköp að hún flýtti sér aftur til baka inn í holuna sína frammi á ganginum. Það er nú meira hvað þetta mannfólk er skrítið, hugsaði hún með sér. Það átti svo sannarlega ekki skilið að fá neina vitneskju hjá sér um hvernig ætti að hekla fínlegar blúndur úr því það gat ekki hagað sér almennilega. Svo lagðist hún aftur upp í mjúka rúmið sitt, snéri sér upp í horn og steinsofnaði.

Köttur út í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.

Enter content here

Enter content here

Enter supporting content here