Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND

Sagan af Lunda Skunda   

 

 

Einusinni var Lundi sem hét Skundi. Hann átti heima í notalegri lundaholu úti  í Vestmannaeyjum. á hverjum morgni þegar að Skundi skreið út úr holunni sinni, blasti við honum  blátt hafið. Skundi var vanur að lyfta sér beint á flug og hnita nokkra hringi áður en að hann hélt út á hafið til að leita sér að einhverju að borða. Uppáhaldsmaturinn hans var sandsíli og yfirleitt var nóg af sandsílum að fá í kringum eyjarnar. Á meðal allra lundanna sem bjuggu í Vestmannaeyjum var alltaf í gangi nokkurs konar keppni um það hver gæti fangað flest sandsíli í einu og borið þau með sér í holuna sína. Frægasti lundinn hét Lúlli því honum hafði einusinni tekist að veiða fimm síli í einu. Lúlli var stór og sterkur lundi með mjög óvenjustórt nef, svo það var ekki að furða að fimm síli höfðu komist fyrir í því í einu.

Skundi var samt alltaf vongóður, á hverjum degi sem hann hélt út á hafið, að nú mundi hann slá met Lúlla og  veiða að minnsta kosti sex síli í einu.  Einn morguninn þegar að Skundi kom út úr holunni sinni, leist honum ekkert á blikuna. Sjórinn var allur úfinn og sterkur vindur feykti sjávarlöðrinu hátt upp á klettana. Skundi sá að flestir hinir lundarnir héldu kyrru fyrir við holuopin sín og hættu sér ekki á flug. Skundi velti því fyrir sér hvort hann væri nógu vel haldinn til þess að borða ekkert þann daginn, en fann að hann var ákaflega svangur og því lengur sem hann hugsaði um svengd sína því svengri varð hann. Loks ákvað hann að vera ekki að drolla þetta lengur og hóf sig á loft.

Sterk vindhviða feykti honum samstundis til hliðar, en hann  náði að rétta sig við og beitti upp í vindinn. Hann fann samt hvað það var miklu erfiðara að fljúga svona á móti vindinum og hvað eftir annað varð hann að berjast á móti lönguninni til að snúa við. Loks var hann kominn vel út fyrir klettaflákana sem umkringdu eyjarnar og við tók sendinn sjávarbotn, en einmitt á slíkum stað var helsta vonin að finna sandsíli. Skundi leit í kringum sig og sá að hann var aleinn á veiðislóðinni.

Hann lækkaði flugið og ákvað svo að steypa sér og kanna útlitið á botninum. Hann skaust niður í hafið með eldingarhraða og um leið og hann fann sjóinn umlykja sig fann hann ekki lengur fyrir vindinum. Á nokkrum augnablikum var hann kominn niður á botninn og viti menn, hann var staddur í miðri sandsíla torfu, sem var sú stærsta sem hann hafði séð á ævinni.  Hann opnaði gogginn sem var þokkalega stór miðað við að hann var bara fimm ára og fyrr en varði var hann búinn að veiða fimm sandsíli. Skundi vissi vel að hann var búinn að jafna veiðimet Lúlla en hann vildi

reyna að gera betur. Hann synti um eins og óður væri og reyndi að gogga eitt sandsíli í viðbót, en það tókst honum ekki. Hann fann að hann yrði fljótlega að fara upp á yfirborðið aftur til að ná andanum, og þá yrði ekki aftur snúið. En þá datt honum dálítið í hug. Hann hafði stundum séð stóra fugla eins og máva og skúma bera fiska sem þeir höfðu veitt í klónum en ekki í munninum eins og allir lundar voru vanir að gera. Ef til vill gæti hann gert það líka.

Hann reyndi að kreppa klærnar en hann fann að hann gæti aldrei kreppt þær nægilega vel saman til að geta haldið í þeim sandsíli. En nú var hann orðinn svo loftlaus að hann varð að gera sér fimm sandsíli að góðu og halda

heim. Um leið og hann spyrnti sér frá botninum fann hann að eitthvað festist í einni klónni á vinstara fæti hans. Hann hélt fyrst að hann hefði tekið með sér smá þara en þegar hann kom upp á yfirborðið sá hann að það var sandsíli sem sat fast á einni tánni. Skundi vonaði að það mundi ekki detta af um leið og hann lyfti sér til flugs og alla leiðina í land hélt hann hægri fætinum krepptum um vinstri fótinn. Hann bar hratt að holunni sinni , enda flaug hann núna undan vindinum.

Þegar hann lenti við holuna sína varð uppi fótur og fit meðal lundanna í næstu holum.                                                                                                      

Þeir trúðu varla eigin augum. Þeir sáu auðvitað að Lundi Skundi hafði jafnað veiðimet Lúlla og gott betur, því hann hafði veitt sex sandsíli, einu fleira en Lúlli.

 

Og eins og það væri ekki eitt og sér saga til næstu holu, þá var Lundi Skundi einnig fyrsti lundinn til að koma með sandsíli í klónum. Enginn Lundi hafði nokkru sinni heyrt um að það hefði gerst áður. Á örskammri stundu flaug fiskisagan um lundabyggðirnar og fyrr en varði var Lundi Skundi orðinn frægasti lundinn í Vestmannaeyjum.

Um haustið þegar að allir lundarnir ákváðu að fljúga til heitari landa eins og þeir gerðu á hverju hausti, var Lunda Skunda boðið að leggja af stað fyrstur. Í mörg ár hafði það alltaf verið Lúlli sem notið hafði þess heiðurs. Við það tækifæri var Lunda Skunda líka veitt nafnbótin veiðikló, og upp frá því varð hann þekktur undir því nafni, sem sagt Lundi Skundi veiðikló.

 


Köttur út í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.

Enter content here

Enter content here

Enter supporting content here