Holur reir
eftir
Svan Gísla Þorkelsson
Leikrit í fjórum þáttum
Persónur:
Vífill
Bergmann, ca. sextíu ára tónlistarmaður
Bergur
Antonsson, 18-22 ára tónlistarnemi
Elsa
Hermannsdóttir, 40 ára tónlistakona og móðir Bergs
Sólrún
Sverrisdóttir, 18 ára unnusta Bergs
Fyrsti þáttur
Sviðið: Vinnuherbergi tónskálds. Flygill á
gólfi, nótur og bækur út um allt, skúffur og skápar. Stólar og borð.
Vífill
(Vífill situr við píanóið og horfir í gaupnir sér. Það er bankað á útidyr og Vifill stendur
upp og gengur að útidyrunum. Raddir þeirra heyrast án þess að þeir sjáist. Ah
já, þú ert þá mættur. Komdu sæll, ég heiti Vífill.
Bergur
Sæll. Bergur.
Vifill
Viltu taka af þér?
Bergur
Ha, a, nei ég verð bara í jakkanum.
Vifill
Gjörðu svo vel að ganga í bæinn.(Þeir koma inn í vinnustofuna)
Já þú ert Bergur. Og hefur sem sagt áhuga á tónlist?
Bergur
Ja, mig langar að sjá hvort ég get lært eitthvað á píanó.
Vífill
Píanó segir þú. Jú víst kenni ég stundum á píanó, en það er lítið núorðið. Lofaðu
mér að sjá á þér hendurnar. (Bergur réttir fram lúkurnar og Vífill horfir um stund
á olíublettaðar hendur Bergs) Þú ert með góðar hendur Bergur. En þú þarft að ná af þér olíunni. Fílabeinið
er fljótt að verða kámugt ef ekki er að gætt. Það er snyrting hér inn af ganginum sem þú mátt nota. Ertu að vinna á bensínstöð?
Bergur
(Gengur fram á ganginn og inn á salernið)
Nei, ég á mótorhjól. Kúplingin slúðrar svolítið.
Vífill
(Gengur að
flyglinum og sest niður við það slær á það innganginn úr fimmtu simfóníu Beethovens og kallar) Kannast þú nokkuð við
þetta?
Bergur
(Kemur aftur inn og stendur við flygilinn)
Ég keypti hjólið af kunningja mínum. Vissi auðvitað að það þurfti að gera ýmislegt fyrir það. En hvað fær maður svo sem fyrir
100.000 kall og einn bjórkassa. Heyrðu ert þú ekki voða frægur?
Vífill
(Hættir að spila)Frægur er nú varla orðið,
en satt segir þú, hvað fær maður svo sem fyrir peninga yfirleitt, hvað þá bjórkassa.
(Dregur til stól sem stendur í seilingarfjarlægð og hallar sér fram) Sestu
hérna, við þurfum að byrja á því að ræða dálítið saman. (Bergur sest) Segðu
mér Bergur, hvers vegna viltu læra að spila?
Bergur
Ég veit það ekki. Eiginlega var þetta mömmu hugmynd. Hún spilar á píanó eins og þú
kannski veist. Hún reyndi að kenna mér dáldið þegar ég var lítill, en þá hafði ég engan áhuga, eða svo segir hún. Svo núna
eftir að ég hætti í skólanum hef ég stundum verið að glamra á píanóið hennar. Eiginlega var það nú hún sem ákvað að hringja
í þig.
Vífill
Móðir þín já. Hún er mikil hæfileika kona. Hefði getað náð langt.... nú jæja, en þú ert sem sagt ákveðinn
í að reyna að læra á hljóðfærið píanó?
Bergur
Maður gæti kannski komist í hljómsveit.
Vífill
Hvað spilar þú þegar þú ert að glamra heima hjá þér?
Bergur
Æ bara eitthvað. Mér finnst mest gaman að spila bara eitthvað út í loftið. Stundum
held ég jafnvel að ég sé búin að ná einhverju eða semja eitthvað nýtt, en svo gleymi ég því bara strax aftur.
Vífill
(Snýr sér aftur að flyglinum og spilar aftur sama stefið og áður eftir Beethoven) Hlustaðu á þetta. Hefur þú heyrt þetta áður?
Bergur
Eitthvað rámar mig nú í þetta. Ég held að mamma spili þetta stundum.
Vífill
Þetta er stef úr einu frægasta tónverki sem samið hefur verið. Upphafið á fimmtu simfóníu Ludviks Van
Beethovens. Þú hlýtur að hafa heyrt hans getið.
Bergur
Hann samdi helling af simfóníum, var það ekki. Ég hlusta nú ekki mikið á svoleiðis tónlist. Maður er
nú fljótur að skella á sig head-settinu þegar sú gamla byrjar. Simfóníur og öll þessi gamla tónlist er svo flókin. Maður skilur
eiginlega ekkert í henni.
Vífill
En kannast þú ekki við þetta? (Spilar nú fyrstu línu Gamla
Nóa)
Bergur
Þetta? Þetta er nú bara Gamli Nói, er það ekki?
Vífill
Jú reyndar, en þetta er líka upphafið á fimmtu simfóníu Beethovens, spilað afturábak. (Spilar tóndæmið bæði afturábak og áfram) Heyrirðu það.
(Syngur með) Da da da daaa. Da da da daaa. og
Da da da daaa. Da da da daaa.
Bergur
Humm. Var Beethoven ekki svaka frægur? Samdi hann líka
Gamla Nóa?
Vífill
Jú víst var hann frægur og er það enn. Eitt frægasta og besta tónskáld veraldar fyrr og síðar, en hann
samdi samt ekki Gamla Nóa. Höfundur þeirrar merku tónsmíðar er löngu gleymdur. En þú heyrir að þessi tónlist, eins og öll
tónlist er ekki flókin í sjálfu sér. Hún byggist upp á mismunandi niðurröðun á sömu nótunum aftur og aftur, með mismunandi
takti. Stundum samanstendur hún af mismunandi tegundum hljóða, eins og t.d. í simfóníunum þar sem fjöldi hljóðfæra eru notuð
samtímis. Í meginatriðum er tónlist byggð á endurtekningum. Rétt eins og lífið sjálft. (Stendur
upp og gengur um gólf) En látum tónfræðina bíða betri tíma. Tónlist er hvort sem er eins og trúin, það er tilgangslaust
að skilgreina hana ef þú lifir hana ekki. (Stendur kyrr fyrir framan Berg)
En segðu mér Bergur, hversvegna heldur þú að mismunandi tónlist hafi svona ólík áhrif á fólk. Sumir fyllast sælutilfinningu
þegar þeir heyra ákveðið verk, en aðrir verða bara önugir og pirraðir við það.
Bergur
(Hugsi) Smekkur fólks er bara mismunandi.
Vífill
Gott og vel, tónlistarsmekkur manna er mismunandi. En hvers vegna?
Bergur
Hvað áttu við, fílar fólk ekki bara mismunandi tónlist?
Vífill
Það er eins með tónlist og alla aðra skapaða hluti, við getum ekki skilið eðli hennar nema í ljósi
tilgangs hennar. En hver er tilgangur tónlistar? Hann er mismunandi og þess vegna fellur mismunandi fólki mismunandi tónlist
vel í geð. Tilgangi tónlistarinnar ræður sá er hana skapar. Þér fellur við tónlist sem
talar til þín og höfðar til anda þíns. Ef andi þinn er dofinn og þú hrærist í einföldum tilfinningum, mér liggur við
að segja, takmarkar tilfinningalíf þitt við efnislegar langanir, þarf ekki annað en einfalt hljóðfall, nánast aðeins trumbuslátt
til að hvetja þig áfram.
Bergur
Þú talar um tónlist á svo háfleygan hátt að ég held að ég geti aldrei skilið hvað þú ert að fara. Getum
við ekki bara byrjað. Kanntu ekki einhver gömul bítlalög sem þú getur kennt mér.
Vífill.
(Sest aftur niður) Ég er ekki ungur maður lengur Bergur minn, reyndar svo gamall að ég verð að vanda til alls þess sem
ég tek mér fyrir hendur. Ég hef ekki lengur tíma til að sóa. Þú ert orðinn hvað, 18 ára og kannt lítið sem ekkert fyrir þér,
allavega hvað tónlist varðar. Jú þú getur vel lært að spila á píanó, jafnvel nægjanlega vel til að komast í einhverja hljómsveit. En flestir mundu samt segja að það væri orðið of seint fyrir þig til að geta orðið
góður píanisti, hvað þá eitthvað meira. Ef það væri ekki fyrir orð móður þinnar og
já..þá hefði ég ekki einusinni fallist á að leyfa þér að koma í þetta viðtal. Ég verð að vera viss um, áður enn ég fellst
á að kenna þér, að þú hafir það til bruns að bera sem þarf til að ég geti réttlætt
það fyrir sjálfum mér að taka þig í læri. Það sem skiptir hér mestu máli er í fyrsta lagi viðhorf þitt og í öðru lagi sál
þín. Það geta allir lært að lesa nótur og jafnvel náð viðunandi tækni með stífum æfingum, en það nægir ekki til að verða alvöru
músíkant. Þess vegna verð ég að ransaka þig Bergur, spyrja þig um hluti sem þér finnast ef til vill ekki skipta neinu máli
í dag, eða þú hefur ekki leitt hugann að yfir höfuð. Ég hef í sjálfu sér ekki nokkurn áhuga að kenna þér að spila á píanó.
Bergur
Þá hef ég víst lítið hér að gera.
Vífill
En ég hef áhuga á að leiðbeina þér til að verða sannur listamaður.
Bergur
Og hvað er sannur listamaður?
Vífill
Sannur listamaður er eins og holur reir. Í sjálfu sér algeng og ómerkileg jurt sem vex út á víðavangi.
En þegar gerð hafa verið á reirstafinn göt á réttum stöðum og í hann er blásið af kunnáttu, streymir frá honum dýrðleg tónlist.
Skilur þú þetta?
Bergur
Ég kom nú bara til þess að sjá hvort þú gætir kennt mér að spila eitthvað. Hvað fær þig annars til
að halda að ég hafi yfirleitt einhverja möguleika á að standast þessar hástemmdu kröfur þínar.
Vífill
Þú ert sjálfsagt búinn að gleyma því, en ég kom stundum heim til þín þegar þú varst svo lítill að það
þurfti að hlaða undir þig púðum svo þú gætir setið við píanóið hennar mömmu þinnar. Ég hlustaði oft á þig spila, en það eru meira en 13 ár síðan.
Bergur
Hlustað á mig spila. En ég kann ekkert að spila, og hef aldrei kunnað neitt að spila. Ertu viss um
að það hafi verið ég?
Vífill
Ég hef aldrei séð neitt barn æfa fingrasetningar með jafn mikilli nákvæmni og einbeitingu og þig. Það eitt sagði mér ýmislegt. Móðir þín og ég vorum nú vinir.....En hvað um það. Viðhorf,
þau skipta mestu máli eins og komið er. Viðhorf þín og sál þín.
Bergur.
Hvað meinar þú sál mín. Þú talar eins og prestur eða eitthvað. Sál? Ertu viss um að það sé eitthvað
til sem heitir sál?
Vífill
Já ég er viss um það Bergur. Sálin, andinn sem gæðir tónlistina og hvaða list sem er því sem gerir
hana að list. Öll list er og verður aldrei annað en tjáning mannsandans. Listamaðurinn tjáir það í list sinni hvernig hann skynjar heiminn og ef andi hans er dofinn, verður list hans dauð og nær aldrei
að stíga út fyrir efnið. Hún verður aðeins að vélrænum tæknibrellum og sundurleitum hljómum eða klessum á striga. Listamaður
með lifandi sál nær að teygja sig út fyrir efnið, hræra anda okkar og lyfta okkur þegar best lætur, til æðri sviða. Beethoven,
Mozart, Bach og Mendelson. Tónlistin er fæða sálarinnar.
Bergur
Þú ert svo ferlega háfleygur að ég skil þig varla. Samt held ég að ég viti hvað þú átt við. Ég finn
það stundum þegar ég er á hjólinu mínu og finnst ég aldrei geta farið nógu hratt. Mér finnst eins og ég sé alltaf of þungur
en þurfi samt að fara hraðar og hraðar þangað til ég tekst á loft og fljúgi.
Vífill
Einmitt, en hjólið þitt er ekki gert til þess að fljúga, til þess þarft þú flugvél.
Flugvél getur reyndar farið með ofsahraða á jörðu niðri, en það er ekki fyrr en hún hefst á loft og flýgur að hún uppfyllir
tilgang sinn. Ef til vill er það ekki orðið of seint að gera píanóið að verkfæri fyrir
þig.
Bergur
(Stendur upp) Komst þú oft í heimsókn til
okkar þegar ég var lítill?
Vífill
Ég þekkti mömmu þína vel hér áður fyrr, áður en hún gifti sig.
Bergur
Nú, ég man ekkert eftir þér. Hvernig þekktir þú mömmu?
Vífill
Við vorum nánir vinir í nokkur ár. Hún er mikil hæfileikakona. En við erum hér til þess að ákveða framtíð
þína, ekki til að rifja upp það sem einu sinni var. Hvað segir þú annars um allt þetta, langar þig til þess að verða flugvél?
Bergur
Hrapa þær ekki stundum?
Vífill
Vissulega, stundum gerist það. En þú ert flugvél sem aldrei hefur farið á loft og ef rétt er að öllu
staðið, held ég að þú munir ekki hrapa, nema að þú viljir það sjálfur.
Bergur
Þú sagðir áðan að mamma væri mikil hæfileikakona. Ég veit að hún hefur það svo sem ágætt, hefur nóg
að gera við að spila með öllum þessum óperusöngvurum út um allt. Alla vega þegar hún er edrú. En hún talar stundum þannig
að manni finnst eins og hún hafi búist við meiru. Hrapaði hún kannski eða var hún aldrei alvöru flugvél.
Vífill
Elsa Hermannsdóttir var vissulega flugvél, já þota, en það hefur sitt hvað gengið á hjá henni. Ég þekkti
hana eins og ég sagði þér fyrir mörgum árum og hef ekkert samband haft við hana fyrr en hún hringdi um daginn út af þér. En
þú getur reitt þig á það að ef þú hefur eitthvað af tónlistar-genunum hennar hefur þú ekki verið svikinn um neitt.
Bergur
Heldur þú þá að tónlistargáfan sé arfgeng?
Vífill
Það má ef til vill segja sem svo. Mér er sagt að einn þriðja af hæfileikum manna megi rekja til erfða,
einn þriðji sé áuninn og einn þriðji áskapaður, það er að segja nokkurskonar guðsgjöf sem gerir þig að þér og þar með að einstöku
fyrirbæri í alheiminum. En það er líka næsta víst að snilligáfa verður aðeins til þegar allir þriðjungarnir leggjast á eitt.
Og svo er það auðvitað þetta með tíman.
Bergur
Hvað áttu við með tíman?
Vífill
Æ þeir hafa víst komist að því að allir snillingar eigi það sameiginlegt að þeir nota tímann vel. Þeir
sofa lítið og eru stöðugt að.
Bergur
Sefur þú lítið?
Vífill
(Brosir) Ég sef réttar sex klukkustundir á sólarhring. Of mikið til að vera snillingur.
Bergur
Sex tíma? Ég sef stundum allan daginn.
Vífill
Það sem við eigum enn eftir að fá á hreint er hvort þú viljir verða alvöru listamaður, eða ætlar að
láta þér nægja að vera mótorhjólaknapi.
Bergur
Ég veit það, en hverju getur maður svarað. Þú gengur með svo háar hugmyndir um mig að maður verður
skíthræddur um að missa af einhverju ef ég samþykki ekki allt sem þú segir.
Vífill
Svaraðu þá fyrir mig annari spurningu Bergur. Ertu hamingjusamur?
Bergur
Hamingjusamur? Hvað áttu við?
Vífill
Ertu ánægður með lífið?
Bergur
Þetta er ágætt. Auðvitað er maður ekkert alltaf í einhverju toppformi og sumt getur farið alveg ótrúlega
mikið í taugarnar á manni. En þetta gengur samt.
Vífill
Áttu marga vini?
Bergur
Vini, maður kallar nú ekki alla vini sína. En ég á sæmilega marga kunningja.
Vífill
Áttu einhvern alvöru vin?
Bergur
(Verður skyndilega argur) Hvað kemur þetta málinu við. Getur þú ekki bara ákveðið hvort þú ætlar að kenna mér á þetta helvítis píanó eða ekki.
Ég nenni ekki að hanga hér í allan dag ef þú ætlar aða halda svona áfram.
Vífill
(Snýr sér að flyglinumu og byrjar að spila Gamla Nóa.) Gott og vel Bergur minn. Ég hef reyndar ákveðið að taka þig að mér. Sestu hérna við hliðina á mér og taktu eftir. Komdu
nú. Kanntu að spila Gamla Nóa?
Bergur
Oh þetta er svo barnalegt.
Vífill
Spilaðu það þá afturábak. (Brosir)
Bergur
(Sest með ólund hjá Vífli og hamrar upphafið á þeirri fimmtu) Hvað sagðir þú aftur að þetta héti?
Vífill
Þetta eru upphafstónar Fimmtu Simfóníu Beethovens.
Bergur
Vá. (hættir að spila)
Vífill
Afsakaðu hvað ég var nærgöngull við þig áðan. Sannleikurinn er sá að það er ákaflega erfitt að segja
til um hverjir eru vinir manns og hverjir ekki. Sannur vinskapur byggir nefnilega á ástinni sjálfri. Hefur þú kynnst henni.
Bergur
Þú ert alveg rosalegur. Pælir þú alltaf svona rosalega í öllu. Svo ertu líka soldið lúmskur, afsakar
þig í einu orðinu en spyrð svo bara áfram um ennþá meiri prívat mál í því næsta.
Vífill
Finnst þér ástin vera prívat mál.
Bergur
Ég er alla vega ekki með neinni á föstu ef það er það sem þig langar að vita.
Vífill
Nei ég átti ekki sérstaklega við kvennamál þín, nei alls ekki hina guðdómlegu vitfirringu eins og Plató
orðaði það. Ég vil bara fá að vita hvaða hugmyndir þú gerir þér um hugtakið ást.
Bergur
Ást, eru ekki allir textar um ástina.
Vífill
(Stendur upp og tekur með sér þunga bók)
Ástin sem ég átti við er eitt af grundvallar lögmálum lífsins. Án hennar væri ekkert til, og allra síst tónlist. Sjáðu nú
til. (Lætur bókina falla á gólfið) Þú hefur líklega lært það í barnaskóla
að það sem fær bókina til að falla í gólfið sé aðdráttarlögmálið, ekki satt. Aðdráttarlögmálið er orð yfir aðlöðunarkrafta
efnisins. Einskonar birting ástarinnar í heimi efnisins.
Bergur
(Háðskur) Já já, aðdráttaraflið er ást,
hvað er þá hatur?
Vífill
Aðlöðun er einn af eiginleikum efnisins. Hvað gerist þegar þú laðast að einhverju. Nákvæmlega það sama
og hjá bókinni sem laðast að jörðinni. Þú dregst að eiginleikum þess. Í veröld okkar mannanna birtist þessi aðlöðunarkraftur
á sviðum sem ekki er hægt að segja að séu algjörlega efnisleg. Við köllum það ást eða kærleika þegar við löðumst að einhverju
í hverju öðru sem ekki er efnislegt. En hvað gerist þegar að aðlöðunarkraftarnir þverra einhverra hluta vegna. Hlutirnir sundrast.
Þegar það gerist hjá okkur mönnunum köllum við það hatur.
Bergur
Heyrðu, ég héllt að þú værir tónlistarkennari ekki einhverkonar vísindalegur Dr, love. Hvað hefur þetta
að gera með að læra á píanó?
Vífill
Þetta hefur með skilnig á viðfangefninu að gera. Ég elska tónlist. Ég laðast að eiginleikum hljóða
og þeim áhrifum sem mismunandi samsetning þeirra getur haft á mig og aðra. Hljóð eru vissulega efnisleg fyrirbæri, en þau
búa yfir þeim eiginleika að geta borið með sér tilfinningar og hugsannir ef þeim er komið þar fyrir. Um leið hætta hljóðin
að vera aðeins efnisleg sveiflutíðni og verða hluti af einhverju handan þess efnislega. Það er tónlist.
Bergur
Þú ert bara með fyrirlestra á takteinunum um hvert einasta mál. En segðu mér, þið mamma voruð nánir
vinir ekki satt.
Vífill
Jú ég sagði þér það áðan.
Bergur
Þekktirðu þá ekki pabba?
Vífill
Jú víst kannaðist ég við Pabba þinn. En ég þekkti hann lítið. Anton var alltaf á ferð og flugi, og
staldrað aldrei nógu lengi við til að ég gæti kynnst honum.Hann býr enn í Ástralíu, er það ekki.
Bergur
Jú hann á heima í Sidney segir mamma. Ég þekki hann ekkert og veit eiginlega ekkert um hann. En þú
þekktir mömmu vel, var það ekki?
Vífill
Nægilega mikið til að vita að hún er mæt kona.
Bergur
Hvernig kynntistu henni?
Vífill
Ég var kennarinn hennar í Almenna tónlistarskólanum.Við urðum strax góðir vinir.
Bergur
(Sposkur) Vinir já. Og hvaða eiginleikum
laðaðist þú að í mömmu?
Vífill
(Tekur upp bókina og sest aftur við hlið Bergs) Elsa á, svo marga frábæra eignleika. Hún er örlát, glaðvær, hefur mjög skarpt innsæi og mikla sköpunargleði. En við
erum núna komnir út í soldið aðra sálma er það ekki.
Bergur
Heyrðu, giftir þú þig aldrei?
Vífill
(Brosandi) Nei ég gifti mig aldrei..
Bergur
Og hvers vegna ef ég má líka gerast svolítið persónulegur.
Vífill
Ég er þannig gerður að mér finnst að fólk eigi aðeins að gefast þeim sem það elskar. Auðvitað er ekki
þar með sagt að fólk geti ekki elskað fleiri en einn, en ég sjálfur hef ekki fundið nema eina konu sem ég gat hugsað mér að
eyða ævinni með.
Bergur
Og hvað varð um hana?
Vífill
Það má segja að óviðráðanlegar aðstæður hafi gert að verkum að það gekk ekki upp.
Bergur
Ert þú bara á mótorhjóli hvað þetta snertir? (Brosir og
stendur upp) Laðaðist hún ekki að þér?
Vífill
Ég vissi alltaf að þú yrðir fljótur að læra.
Bergur
Og hvað?
Vífill
Kannski er best að við látum hér staðar numið í bili Bergur minn. Við eigum eftir að eyða miklum tíma
saman, ef Guð lofar, næstu misserin og eigum eftir að kynnast hvorum öðrum miklu betur. Við skulum reyna að koma okkur saman
um hvenær og hvað oft þú getur komið í hverri viku.
Bergur
Mamma var nú bara að tala um einu sinni í viku. Þú ert víst svo dýr.
Vífill
Við skulum segja að peningar skipti ekki máli að sinni. Ég tel að þú verðir að koma til mín til að
byrja með,fimm sinnum í viku.
Bergur
Fimm sinnum! Það fer þá allur tíminn hjá manni í þetta.
Vífill
Þú verður að líta á þetta sem bæði starf og nám. Fjóra tíma minnst á hverjum degi, fimm daga vikunnar,
er það sem þarf til.
Bergur
Ertu genginn af göflunum. Ég geri þá nákvæmlega ekkert annað.
Vífill
Nákvæmlega.
Bergur
Og hvað lengi á þetta að vera svona, fram á sumar eða hvað?
Vífill
Minnst fjögur ár.Kannski sex.
Bergur
Fjögur ár, ertu að grínast.
Vífill
Mundu að tími er afstætt hugtak. Ef þú færir í háskólanám tæki það ekki minna. Læknanám tæki þig minnst
sex ár. Hvað er tíminn annars. Hann er bara viðmið fyrir breytingar. Allt sem ekki breytist er hreinlega dautt. Breyting er
því eitthvað sem þú ættir að álíta eftirsóknarvert.
Bergur
Og hvað ef mér snýst hugur og ég vill hætta einhvern tíman á þessum fjórum árum?
Vífill
Ég held að ég geti fullyrt að þér á eftir að snúast hugur mörgum sinnum á næstu fjórum árum. Hann á
eftir að snúast og snúast aftur. Við erum að tala um þinn huga og þú ræður hvert hann snýr.
Bergur
Og hvað gerist ef... mamma dettur í það?
Vífill
Henni hefur nú gengið nokkuð vel upp á síðkastið ekki satt.
Bergur
Það eru að verða komin tvö ár held ég. En það segir ekki neitt, hún getur fallið hvenær sem er.
Vífill
Gott og vel. Segð þú mér hvað gerist ef mamma þín byrjar að drekka aftur?
Bergur
Nú ég verð að sjá um hana.
Vífill
Hefur það gerst áður?
Bergur
Síðast missti ég úr næstum heila önn áður en hún fékkst til að fara í meðferð.
Vífill
Sumt er á okkar valdi Bergur, annað ekki. Þú ert orðinn fullveðja og berð fyrst og fremst ábyrgð á
þínu eigin lífi. Móður þinni er fullkunnugt um hvaða kröfur ég mun gera til þín og það var hún sem bað mig fyrir þig. Ég er
viss um að hún treystir sjálfri sér til þess að vera þér frekar til stuðnings en hitt.
Bergur
Ég er samt ekki viss um að þetta geti gengið. Það er svo margt sem getur gerst.
Vífill
Hvað annað?
Bergur
Ég ætlaði nú að fá mér vinnu.
Vífill
Námið er vinna. Ég er búin að segja þér að þú þarft ekki að borga mér.
Bergur
Maður þarf samt að hafa peninga.
Vífill
Til hvers?
Bergur
Nú til að lifa, svo skulda ég líka dálítið.
Vífill
Hverjum
Bergur
Ríkinu
Vífill
Ríkinu, fyrir hvað, varla skatta?
Bergur
Nei sekt.
Vífill
Umferðalagabrot eða svoleiðis eitthvað. Það getur nú varla verið há upphæð.
Bergur
Ég skulda ríkinu 270.000 krónur í sekt vegna innbrots sem ég var dæmdur fyrir. Ef ég borga það ekki
verð ég að fara í djeilið.
Vífill
Ó já innbrotið. Þið stáluð sígarettum var það ekki?
Bergur
Vissir þú um innbrotið?
Vífill
Já ég vissi af því, mér var samt ekki kunnugt um að þú hefðir verið dæmdur.
Bergur
Sex mánuðir skilorðsbundnir og 270 þúsund kall í sekt.
Vífill
Hvað segir þú um að selja hjólið og borga skuldina fyrir andvirðið.
Bergur
Ég fæ aldrei svo mikið fyrir það
Vífill
En ef þú gætir nú fengið svo mikið fyrir það?
Bergur
Það mætti athuga það
Vífill
Viltu Þá selja mér hjólið?
Bergur
Ha, selja þér hjólið. Ertu brjálðaður eða hvað. Hvað ætlar þú að gera með mótorhjól.
Vífill
Ég skal kaupa það af þér á 300.000 krónur.
Bergur
En það er nú ekki svo mikils virði. Þú getur nú fengið nokkuð gott hjól fyrir 300.000.
Vífill
Viltu selja?
Bergur
Á maður þá bara að taka strætó?
Vífill
Viltu selja eða ekki?
Bergur
Ég veit það ekki, hvað ætlar þú að gera við mótorhjól.
Vífill
Það er mitt mál, viltu selja mér hjólið eða heldurðu að þú getir fengi meira fyrir það annarsstaðar?
Bergur
OK díll, og þú borgar umskráninguna. (Réttir
Vífli höndina)
Vífill
(Stendur upp og tekur í hönd Bergs fer síðan í brjóstvasa sinn tekur upp ávísanahefti og skrifar
ávísun) Þú skalt nota þessa peninga til að greiða keisaranum það sem keisarans
er. Seinna finnum við leið til þess að ná þessu af honum til baka. Koma tímar og koma ráð. (Réttir Bergi ávísunina sem tekur hana og stingur henni í vasan)
Bergur
(Glottandi) Hvenær viltu ganga frá pappírunum?
Vífill
Við gerum það seinna. En ég ætlaði í framhaldi af þessum viðskiptum okkar að biðja þig um að gera mér
greiða.
Bergur
Já, já, ef ég get.
Vífill
Getur þú annast hjólið fyrir mig. Þú mátt nota það eins og þú villt, bara að halda
því í góðu standi og reyna ekki að fljúga á því.
Bergur
(Lætur sig falla í stólinn) Hversvegna ertu að
þessu. Ertu núna búinn að skuldbinda mig þér persónulega. Verð ég núna að standa og sitja eins og þú segir. Ert þú nú orðinn
keisarinn?
Vífill
Alls ekki Bergur. Þú ert aðeins skuldbundinn sjálfum þér. Þú þarft hins vegar að hafa huga þinn allan
við námið sem er framundan og ef það kostar ekki meira en sem nemur notuðu mótorhjóli, finnst mér til þess vinandi.
Bergur
Ertu svona ríkur eða hvað?
Vífill
Ég er ríkur af ýmsu, fátækur af öðru. Af peningum á ég ekki mikið, en nóg samt til að borga fyrir hjólið.
Bergur
Þú sagðist vera nánast hættur að kenna á píanó. Á hverju græðir þú.
Vífill
Ég hef fengið vel greitt fyrir ýmis verkefni sem ég hef tekið að mér. Svo hef ég dálitlar tekjur af
stefgjöldum.
Bergur
Er mikið spilað eftir þig í útvarpinu?
Vífill
Það kemur fyrir ennþá.
Bergur
Mamma segir að þú sért rosalega gott tónskáld en að þú sért haldinn fullkomnunaráráttu
og þess vegna lendi stærsti hluti tónsmíða þinna ofan í skúffu.
Vífill
(Stendur upp fer ofaní skúffu og tekur upp nótnabúnka og skellir þeim á flygilinn) Heldur þú að þetta séu einhverjar moskuskreytingar.
Bergur
Moska, er það ekki borg í Rússlandi?
Vífill
Nei moska ekki Moskva. Moska er bænahús múslima. Þær eru gjarnan skreyttar að utan sem innann með mósaík-lögnum
sem sumar hverjar eru svo vel unnar að þær virðast fullkomnar. En ef grannt er
skoðað kemur í ljós að í hverri mynd er samt smá galli. Ein flís liggur á skjön við allar aðrar, stundum í miðri mynd, stundum
einhversstaðar í jaðri hennar. Ástæðan er sú að meðal múslima þykir það stærilæti gagnvart Guði ef menn reyna að skapa eitthvað
fullkomið, því aðeins Guð er fullkominn. Þess vegna hafa þessir frábæru listamenn sem lögðu mósaík myndirnar lýtt handverk
sín og áréttað þannig ófullkomleika sinn frammi fyrir Guði og mönnum. Sjálfur hef ég aldrei þurft að lýta tónsmíðar mínar
viljandi. Gallar þeirra og hnökrar eru öllum of augljósir. Ég hef aðeins reynt að fækka þeim eins og kostur er og það getur
stundum verið tímafrekt.
Bergur
Trúir þú á Guð?
Vífill
Ég er nokkuð viss um að hann er til. Ég held samt að ég geti varla sagt að ég trúi á hann.
Bergur
Hvernig getur þú verið viss um að hann sé til?
Vífill
Á sama hátt og ég get verið viss um að tveir plús tveir eru fjórir. það er vitsmunaleg vissa.
Bergur
En getur þú sannað að Guð sé til
Vífill
Sannað og ekki sannað. Ég spyr, hvernig getur regla orðið til úr óreglu án þess að vitsmunir komi þar
nokkuð nærri. Ef eðli efnissins væri að vera í óreglu eins og það var víst upphaflega, mundi það halda áfram að vera í óreglu.
Hvaðan kom reglan. Og það eitt að vitsmunir eru hluti að alheiminum segir okkur að þeir hljóti alltaf að hafa verið til staðar
í einhverju formi frá upphafi og kannski handan þess ef hægt er að ímynda sér það. Það eru þessi afleidda upprunalega uppspretta
vitmunanna sem ég kalla Guð.
Bergur
En að vita að Guð er til, er ekki það sama og að trúa á hann.
Vífill
Skarplega athugað Bergur. Eins og ég hef stundum sagt, er það eins með tónlist og trú þú verður að
lifa hana, annars verður hún bara fræði og æfingar.Í þessu tilliti á maður að vera eins og hinn holi reir.
Bergur
Ég hef aldrei verið viss um neitt með Guð. Auðvitað þá fermdist maður eins og aðrir. Ég man að mamma
kom frá Staðarfelli bara til að vera í veislunni, fór svo strax aftur. Amma var þá nýdáin og mamma fór algjörlega í klessu.
Magga frænka sá alveg um allt.
Vífill
(Fitlar) Já ég þekkti Margréti ágætlega.
Bergur
Nú hvernig þekktir þú hana?
Vífill
Ég umgekkst bæði Margréti og Þórhall mikið þegar að ég og mamma þín áttum samleið um tíma. Þórhallur
er firnagóður kontrabassa-leikari.
Bergur
Það getur svo sem vel verið, hann spilar með simfóníunni. En hann er samt auli. Hann lemur bæði kerlinguna
og krakkana. Mamma segir að hann sé sadisti.
Vífill
Hann hefur mikið skap, svo mikið er víst. En hann var góður vinur hans pabba þíns. Þeir baukuðu mikið
saman í þá daga.
Bergur
Mér er alveg skítsama, hann er hvelvítis aumingi.
Vífill
Þekkir þú Þórhall eitthvað persónulega?
Bergur
Æ nei, og ég vil ekki þekkja hann. Hann kemur stundum til mömmu í kaffi og lætur eins og hann sé heima
hjá sér. Mamma þolir hann ekki heldur.
Vífill
Hann er þá kannski lélegur hljóðfæraleikari þrátt fyrir allt.
Bergur
Varstu ekki að segja að hann væri svo góður.
Vífill
Ég var bara að hugsa um gömulu indversku spekina sem heldur því fram að alheimurinn
sé gerður úr miklum ómi sem gengur fram af almættinu. Segja má að hamingjan og lífsleiknin sé fólgin í því að finna þennan
óm og læra að halda honum í einu og öllu og leiða hann í gegnum reirinn sinn. Þeim sem ekki tekst þetta lenda stöðugt upp
á kant við allt og alla. Virðast ekki geta flúið mistökin ein eftir önnur.
Bergur
(Skyndilega
mjög reiður) Þórhallur spilar þá sko rammfalskt þennann andskotans óm og, og mamma líka, Þau bæði tvö. Hún heldur
að ég viti það ekki, en hún hefur sofið hjá honum þessu helvíti ...ég veit það alveg, oft meira að segja.
Vífill
En varstu ekki að segja að móður þinni líkaði alls ekki við hann?
Bergur
Þú veist ekki hvernig hún getur verið. Hún er svo rugluð. Hvernig á maður að fatta fólk sem talar um
einhvern eins og hann sé ófreskja og getur svo látið hann ríða sér á eftir.
Vífill
Ég skil að þú ert reiður en svona orðbragð vil ég ekki að þú notir í mínum húsum. Hvað sem þú kannt
að halda um mömmu þína þá er víst að hún er ekki slæm kona.
Bergur
Hún hefur alltaf klikkað og á örugglega alltaf eftir að klikka.
Vífill
Það hrasa allir einhvern tíman, sumir oftar en aðrir. En það er ekki spurt um það þegar allt kemur
til alls, heldur hversu oft viðkomandi stóð upp. Og um þessar mundir er hún á fótunum, ekki satt.
Bergur
Á fótunum. Hvað er hún þá að gera liggjandi með þessum aula. Er hann ekki giftur.
Vífill
Hefur þú rætt þetta við hana?
Bergur
Það er ekkert hægt að ræða við hana. Hún mundi bara segja mér að þetta kæmi mér ekkert við. Ég veit
ekki einu sinni hvers vegna ég er að segja þér frá þessu, ég þekki þig ekki neitt. Ég hef nú aldrei getað tala við svona eldra
fólk um neitt.
Þögn
Vífill
En segðu mér Bergur, mannstu eftir henni Freydísi ömmu þinni.
Bergur
Jú jú, ég man vel eftir henni. Hún var nú eitthvað skrítin. Ég fór einu sinni í heimsókn til hennar
í Keflavík með mömmu. Allt fullt af drasli heima hjá henni maður.
Vífill
En kynntist þú henni ekkert. Hún var nú eitthvað að eiga við tónlist hér í gamla daga, söng með hljómsveit
upp á Keflavíkur-flugvelli um árabil.
Bergur
Já ég veit, hún kynntist pabba mömmu þar, var það ekki. Nei, það var aldrei mikið samband á milli okkar
og hennar. Svo veiktist hún og ég sá hana einu sinni á sjúkrahúsinu áður en hún dó.Hvers vegna ertu að spyrja að þessu?
Vífill
Ja þú sagðist aldrei hafa talað mikið við fullorðið fólk.
Bergur
Fullorðið fólk skilur aldrei hvað ungt fólk er að hugsa. Það hagar sér eins og það hafi aldrei verið
ungt sjálft.
Vífill
Þér er velkomið að ræða þessi og önnur mál við mig þegar þú villt Bergur. Þegar þú ert kominn í læri
hjá mér lýt ég þannig á að ekkert varðandi þig sé mér óviðkomandi, óskir þú eftir að deila því með mér.
(Þögn)
Jæja Bergur, það er ef til vill kominn tími fyrir okkur að slíta þessu samtali. Þú ert ákveðinn í því
að láta að reyna á þetta samkomulag okkar er það ekki. Mætir hér stundvíslega klukkan tíu á mánudag. Þá hefjum við fyrsta
tímann.
Bergur
(Daufur
í dálkinn)Jú ætli það ekki. Á ég þá að taka hjólið og passa það fyrir þig.
Vífill
(Gengur
að Bergi sem stendur upp, og þeir takast í hendur) Ef þú vildir vera svo vænn. Það er búið að vera mjög gaman að
kynnast þér, en við erum nú bara rétt að byrja. Ég bið að heilsa mömmu þinni og farðu nú varlega á hjólinu mínu. (Brosir)
Bergur
Sjáumst á mánudag (gengur út) Ok Bæ
Vífill
(Gengur að flyglinum sest niður og spilar með annarri hendi Gamla Nóa)
Annar þáttur
Kennslustund, tveimur árum seinna, í vinnustofu Vífils
er að hefjast. Sitthvað hefur breyst í vinnustofunni. Bergur situr við flygilinn og blaðar í nótnabúnka. Vífill kemur inn
með tekönnu og bolla á bakka.
Vífill
Mikið er hann kaldur. Var ekki erfitt að komast á hjólinu í öllum þessum snjó.
Bergur
Ég skildi hjólið eftir heima og tók strætó. (Leggur frá
sér nótnaheftið og þeir setjast saman við lítið borð og fá sér te.)
Vífill
Það var skynsamlegt af þér. Þú hefur þurft að vakna svolítið fyrr var það ekki.
Bergur
Hvernig er með þessa sónötu sem þú ert að semja, hefur þér miðað eitthvað frá því í haust.
Vífill
Víst hefur mér miðað en hún er ekki búin. Ég heyri að þú hefur verið að hnýsast einu sinni enn.
Bergur
Maður kallar það nú ekki að hnýsast þó maður kíki á það sem fyrir augu ber. Mér sýndist
þú ekki hafa gert neinar stórvægilegar breytingar.
Vífill
Tónsmíðar fela í sér aðgát með hinu smáa, það veistu.
Bergur
(Hæðinn)Eða kannski þú sért bara orðinn
nokkuð ánægður með stykkið.
Vífill
Það er nú nokkuð langt í land enn held ég.
Bergur
Verður þú aldrei þreyttur á þessu?
Vífill
Jú stundum þreyttur en aldrei leiður.
Bergur
Ég verð að viðurkenna að ég hef fundið fyrir talsverðri þreytu upp á síðkastið. Við höfum líka verið
að í tvö ár án þess að gera meira en nokkra daga hlé yfir stórhátíðardaganna. Ég var að hugsa hvort það gæti ekki verið bara
gott að taka eins og 10 daga hvíld og gera eitthvað annað. Alla vega gæti ég
notað hvíldina.
Vífill
Hvað áttu við með hvíld. Hætta æfingum?
Bergur
Ja, bara í nokkra daga. Ég var jafnvel að hugsa með mér að það gæti verið gaman að skreppa til útlanda.
Vífill
Foreldrar Sólrúnu eiga heima í Flórída er það ekki.
Bergur
(Hörkulega)Já reyndar. Sólrún ætlar að fara
þangað um páskanna, og ég get fengið farmiða á tilboði unúna. Ég gæti vel hugsað mér að skella mér með.
Vífill
Ég vissi ekki að þú værir í svona nánum vinskap við Sólrúnu. Þið eruð búin að þekkjast svo stutt.
Bergur
Tíminn er afstæður manstu.(Brosir hæðinn) Við erum
búin að þekkjast í næstum þrjá mánuði. Mér líkar mjög vel við hana eins og ég sagði þér.
Vífill
En Þú sagðir mér ekki að þú værir orðinn ástfanginn af henni. Flygillinn hefur reyndar hljómað bjartari
undanfarið.
Bergur
Sólrún er frábær. Sú var líka ánægð með afmælisgjöfina. Eftir að ég spilaði menúettinn fyrir hana,
sagði hún að hann væri besta afmælisgjöf sem hún hefði nokkurn tíma fengið.
Vífill
Lagið sem þú kallar sólstafadansinn? Tileinkaðir þú henni það. Það er vissulega snoturt og nafnið er
líka fallegt.
Bergur
En hvað segir þú um að við tökum smá hlé, tíu daga eða svo. Það gæti líka gefið þér tíma til að ljúka
við sónötuna.
Vífill
Það lengsta sem við höfum ekki sést í þessi tvö ár eru þrír dagar. Þá daga æfðir þú þig samviskusamlega
heima hjá þér, en samt fannst mér eins og það tæki viku fyrir okkur að ná tempóinu upp aftur. Vegna þess hversu vel okkur
hefur tekist að fylgja þessu stífa prógrammi hefur þú náð árangri sem aðrir ná ekki á áratug. Ertu tilbúinn að hætta því fyrir
10 daga á sólarströnd?
Bergur
Ég vil nú aðallega bara vera nálægt henni.
Vífill
Þú ert sem sagt raunverulega ástfanginn.
Bergur
(Argur)Ég veit ekki hvað ég er raunverulega.
Fólk notar þetta ástar hugtak eins og einhverskonar ábreiðu yfir allt mögulegt. Ég veit bara að mér líður ágætlega í návist
hennar og vill vera nálægt henni. Ég laðast(Hermir eftir Vífli) að henni,
og samkvæmt þínum skilgreiningum er það einhverskonar....
Vífill
Jú vissulega, en….
Bergur
(Grípur
framm í) Hvað segir þú um að við tökum smá pásu um páskana?
Vífill
Ertu búinn að ræða þetta við mömmu þína?
Bergur
Ja, ég minntist á þetta. Mér finnst að hún vera í betra formi enn nokkru sinni fyrr. Reyndar sé ég
ekki að henni komi þetta neitt við. Ég á sjálfur fyrir farinu. Þó þetta hlutastarf í sundlauginni gefi ekki mikið af sér,
hefur mér tekist að spara soldið. Þú hefur nú séð til þess að maður hefur ekki einu sinni tíma til að eyða peningunum sínum.
Vífill
Þú ert sem sagt óhræddur við að rugga bátnum?
Bergur
Þú skalt nú ekki vera að beita þessu á mig. Ég veit vel að þetta nám mitt hefur
haft mikil áhrif á hana.Alla vega hefur hún ekki bragðað dropa í fjögur ár. En við erum aðeins að tala um nokkra daga frí.
Og fyrst við erum farnir að tala um mömmu, þá skal ég segja þér að það gæti ýmislegt annað ruggað bátnum meira en nokkra daga
fjarvera mín. Það hefur ýmisslegt komið upp úr kafinu upp á síðkastið. Ég furða mig reyndar ekki lengur á því hvers vegna
þú hefur aldrei viljað tala um kunningskap ykkar hér áður fyrr.
Vífill
Ég átti nú við að þú ert óhræddur um að svona frí mundi ekki trufla hjá þér einbeitinguna við námið.
En hvað áttu við, komið upp úr kafinu? hefur mamma þín verið að segja þér eitthvað af samskiptum okkar hér áður fyrr.
Vífill
Það má segja það.
Vífill
Það er kannski ekki fríið sem ég hef aðal-áhyggjur af Bergur minn. Ef þú ert raunverulega farinn að
tengjast þessari stúlku sterkum tilfinningalegum böndum sem þú villt leggja þig fram við að rækta, þá er það eitthvað sem
greinilega kemur til með að hafa áhrif á samstarf okkar og á þig um ófyrirsjánlega framtíð. Hefur þú hugsað um það?
Bergur
Ég hef hugsað um það og ekki hugsað um það. Er ekki sagt að ástin sé blind?
Vífill
Það er svo auðvelt að þola kosti hvers annars, það eru ókostirnir sem ráða úrslitum og því miður erum
við oftast nær blind á þá svona í byrjun. Þessu ætti auðvitað að vera öfugt farið. Ef við værum blind á kostina og væri auðveldara
fyrir okkur að sjá hvort við getum sætt okkur við ókostina.
Bergur
Stundum finnst mér eins og ég sé að tala við haus og ekkert annað. Hvernig á maður að verða ástfanginn
af göllunum. Ef allir einblíndu á þá mundi mannkynið verða útdautt á skömmum tíma.
Vífill
Það þarf nú ekki að vera sérlega djúpt sambandið á milli kynjana til að koma barni undir.
Bergur
Og hvað veist þú um það. Ekki átt þú nein börn, er það?
Vífill
Það var og. Hér liggur nú eitthvað dýpra undir fyrst þú ert farinn að skensa mig svona. Um hvað rædduð
þið eiginlega, þú og mamma þín.
Begur
Við ræddum um þig.
Vífill
Já, það hlaut að koma að því. Og hvað sagði hún þér um mig?
Bergur
Við töluðum saman lengi í gærkvöldi. Og það kom svo sem ýmislegt upp úr dúrnum, ýmisslegt sem þú hefur
svo sem ekki verið að segja manni neitt frá. En samkvæmt því sem hún segir voruð þið nú dáldið meira en vinir.
Vífill
Svo þú og Elsa voruð að ræða um liðna tíma.
Bergur
Liðna fyrir þig kannski, en greinilega ekki hvað hana snertir. Hún sagði mér soldið frá því þegar þið
voruð saman.
Vífill
Nú já, en það eru liðnir tímar Bergur.
Bergur
(Verður skyndilega harður) Hún sagði mér
að þú hefðir svo gott sem svikið hana. Einn dag bara staðið upp og gengið út án þess að gefa nokkra skýringu.
Vífill
Það er alveg rétt, ég fór.
Bergur
Þú hlýtur sem sagt að hafa uppgötvað eitthvað hræðilegt í fari hennar. Hvaða ókosti hafði hún sem þú
gast ekki hugsað þér að búa við. Er hún ekki annars þessi eina kona sem þú sagðist hafa hitt og geta hugsað þér að giftast?
Vífill
Það er rétt hjá þér Bergur, það var hún. En kostir hennar eða gallar höfðu ekkert við aðskilnað okkar
að gera. Ég veit að þú villt að ég geri núna hreint fyrir mínum dyrum og segi þér mína hlið á málunum.En mér var nauðugur
einn kostur að segja skilið við móður þína af ástæðum sem mér er og var ómögulegt að skýra frá. Þær ástæður hafa ekkert breyst.
Ég vissi að það hlaut að koma að því að þú vildir fá að vita meira um samskipti okkar Elsu og mundir leita til þess annara
leiða en að spyrja mig eins og þú hefur stundum reynt í gegnum tíðina.
Bergur
Já ég skil. Þér finnst allt í lagi að ræða einkamálin svo fremi sem þau eru ekki þín eigin.Þú hefur
alltaf látið sem svo, eftir að ég hóf námið, að þér væri ekkert óviðkomandi sem mig snerti. Það er alveg á hreinu að síðustu
ár hefur líf mömmu snúist um það að reyna að lifa einhvern veginn án þín, komast af án þín.Drykkjan og óreglan, þetta hófst
allt saman eftir að þið skilduð. Þér er auðvitað ljóst að líf mitt er ekki ósnert af líferni hennar. Finnst þér þú ekki skulda
mér, að ég tali nú ekki um mömmu, einhverja skýringu á því hversvegna þú hunsaðir hana, og lést þig hreinlega hverfa fyrirvaralaust.Þú
skildir hana eftir í tómarúmi sem aldrei hefur verið fyllt.
Vífill
Ég gerði það sem ég ég varð að gera.
Bergur
Þú hafðir áhyggjur af því þegar ég byrjaði að ég mundi ekki endast í þessu, að ég mundi hlaupa frá
náminu. En nú sé ég að það gæti allt eins verið þú, sem meirri hætta er á að klikkir. Hvað hefur þú að fela?
Vífill
Það sem þú segir er að vissu marki sanngjörn gagnrýni.Sannleikurinn er sá að mér urðu á mistök, en
þau voru þess eðlis að ég gat ekki gert annað en það sem ég gerði. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þetta fyrir þér Bergur.
(Stendur upp hugsi og gengur að persnesku teppi sem hangir á veggnum)Persnesk
teppi eru fræg fyrir fegurð sína um allan heim. Þau eru gjarnan ofin í þorpum þar sem allir þorpsbúar taka þátt í vefnaðinum
og eru rándýr því stundum tekur heilt ár að vefa eitt slíkt. Oftast er mynstur teppisins teiknað upp, litirnir ákveðnir og
svo er hafist handa á risastórum vefstól þar sem hver þorpsbúi leggur til ákveðna vinnu í verkefnið. Þegar líða tekur á vefinn,
kemur oft í ljós að mistök hafa átt sér stað. Einhver hefur ofið rangan lit eða villu í mynstrið. Öllum er ljóst að ekki er
hægt að rekja teppið upp sem komið er, og því er nú kallað á þann sem gerði teikninguna og honum falið að breyta henni þannig
að mistökin verði eðlilegur hluti af mynstri teppisins. Mistökin verða sem sagt felld inn í heildina og verða þegar upp er
staðið hluti af feguð verksins.(Sest aftur) Líf hvers okkar er eins
og þessi teppavefnaður.Þegar að við gerum einhver mistök, sem eru óumflýjanleg því ekkert okkar er fullkomið, er hlutverk
okkar að reyna að bæta fyrir mistökin. Ekki með því að rekja allt upp, því ekkert er hægt að taka til baka, heldur að leitast
við að fella mistökin inn í líf okkar og læra að lifa við þau.
Bergur
(Hæðinn)Það er eins og mamma segir, þú ert
snyllingur. Við skulum halda þessu dæmi þínu aðeins áfram. Þið mamma hófuð sem sagt að vefa teppi, þú gerðir mistök og flúðir
án þess að láta vita af þeim. Hættir þátttöku í verkefninu og enginn skilur í hverju þessi mistök þín liggja nema þú.
Vífill
Já ég hætti og fór, gat ekki annað. Síðan hef ég verið einn að vefa þessar slitrur sem líf mitt er.
En ég get fullvissað þig um það að með tilburðum mínum til þess að kenna þér það sem þú ert svo greinilega skapaður til Bergur
minn, finnst mér teppið mitt vera að taka á sig þolanlegri mynd.
Bergur
Ertu að reyna að bæta fyrir eitthvað með því að taka mig að þér?
Vífill
Ég er að reyna að gera það sem er rétt. Það er allt og sumt. Mig grunaði snemma að í þér byggi snilligáfa
sem mundi leiða þig út á mjög vafasamar brautir ef hún fengi ekki útrás. Síðustu tvö ár hafa sannað að ég hafði rétt fyrir
mér.
Bergur
Svo þú heldur að ég hafi verið skapaður til að spila á píanó rétt eins og þú.
Vífill
Það hef ég aldrei sagt, en hæfileikar þínir liggja óumdeilanlega á sviði tónlistar. Þú hefur að sjálfsögðu
eins og allir menn víðari tilgang.
Bergur
Og hver er þessi víðari tilgangur?
Vífill
Að fullnægja eftir bestu getu þeim andlegu og efnislegu grunn-þörfum sem líf okkar manna byggist á.
Bergur
Sem eru?
Vífill
Rétt eins og til eru efnislegar grunn-þarfir sem þarf að fullnægja til að við getum lifað, eru til
andlegar grunn-þarfir. Þær er tvær eftir því sem ég fæ best séð. Að elska og að þekkja. Á þessum hvötum grundvallast allt
okkar andlega líf og það við köllum í daglegu tali siðmenningu er afleiðing samruna þessara efnislegu og andlegu grunn-þarfa.
Bergur
Það stendur aldrei á skýringunum frá þér þegar kemur að lífsspekinni.En hvað með sannleikann? Ef það
er grunnhvöt hjá mér að þekkja, hlýtur það að vera grunnþörf til að þekkja sannleikann og honum kýst þú að halda leyndum fyrir
mér.Hefur þú rétt til þess?
Vífill
Þar hittir þú naglann beint á höfuðið Bergur. Sumt höfum við rétt til að vita, annað ekki. Auðvitað
hefði verið betra ef ég hefði getað gefið Mömmu þinni skýringu á sínum tíma,en ég mat það svo þá jafnt sem nú að þetta væri
mitt einkamál.
Þögn
Bergur
(Verður einlægur)Finnst þér í raun og veru
að ég eigi ekki að fara til Flórída?
Vífill
Mér finnst í raun og veru að þú eigir að fara. Ég vildi vera viss um að þú færir þangað á réttum forsendum.
Veistu hvort það er til píanó á heimilnu.(Brosir)
Bergur
Það veit ég því miður ekki. En hvað um það, eigum við ekki að fara að byrja. (Gerir sig líklegan til að hefja tímann. Sest við píanóið og
slær fyrstu nóturnar í verkinu, Hættir við og blaðar í gegnum þær) Heyrðu, þetta er eftir þig.
Vífill
Já eitthvað sem þú hefur aldrei heyrt áður. Eitt af afkvæmum mínum sem vel flest liggja hér ókláruð
í yfir-troðnum skúffum og hillum. Sjáum nú hvaða höndum þú ferð um kennarann þinn.
Bergur
Dauðans dyr, voða er þetta eitthvað þunglyndislegur titill.
Vífill
Það finnst mér ekki. Þetta er sónata um lífið.
Bergur
Af hverju kallar þú hana ekki þá um lífið eða eitthvað svoleiðis.
Vífill
Vegna þess að ég er að skoða lífið út frá sjónahóli dauðans.
Bergur
Þetta virkar samt voðalega þunglyndislegt.
Seinna um daginn Vífill og Bergur hafa lokið við kennslustundina,Bergur er farinn og Vífill er að semja niðusokkinn
við píanóið. Elsa kemur hljóðlátlega inn í stofuna án þess að Vifill verði henn var.
Elsa
Long time no see Vífill
Vífill
Elsa, hva,þú hér, hefur eitthvað komið fyrir.
Elsa
Tja, komið fyrir. Jú víst hefur sitthvað komið fyrir. Á annars ekki að bjóða mann velkomin.
Vífill
Jú, fyrirgefðu,sæl Elsa mín. (Stendur upp og kissir Elsu
á kinnina. Elsa litast um)
Elsa
Já, eins og ég ímyndaði mér.
Vífill
Tja, þú veist hvernig ég vil hafa hlutina.
Elsa
Ég er nú ekki svo viss um það.
Vífill
Þú gerðir það alla vega einu sinni.
Elsa
Já einu sinni var, kóngur og drottning í ríki sínu.
Hvað ertu að fást við þessa dagana fyrir utan drenginn minn.
Vífill
Æ þetta sama, aftur og aftur í mismunandi röð.
Elsa
(Horfir
á tebollana á borðinu)Þú átt kannski te að bjóða manni svona upp á gamalan kunningsskap.
Vífill
Viltu ekki taka af þér?
Elsa
Nei, ég er ekki viss um að ég ætli að stoppa lengi.
Vifill
Ég ætla að setja ketilinn á. (Bregður sér frá og á meðan
litast Elsa meira um)
Elsa
Svo hér hefur þú alið manninn síðast liðin ár og svitnað ofan í nótnaborðið. Ertu hættu að reykja.
Er þér ekki sama þótt ég kveiki mér í. (Tekur upp sígarettur og kveikir sér í einni)
Áttu ekki öskubakka.
Vífill
(Kemur aftur inn og með undirskál í hendinni og leggur á borðið)Því miður, enginn öskubakki. En þér er velkomið að reykja. Ég skal koma með undirskál.
Elsa
Já mér er sko velkomið að reykja. Hvað segirðu annars Vífill, þarftu nokkuð að fara eitthvað.
Vífill
Nei, nei, ég þarf ekkert að fara.
Elsa
Nei, mig grunaði það reyndar. En hvernig lýst þér annars á þessi Flórídaplön hjá stráknum.
Vífill
Nú svo þú veist þá af þeim. Bergur sagðist bara hafa minnst á þau við þig.
Elsa
Auðvitað veit ég af þeim. Við eru mjög náin ég og Bergur. Hann segir mér allt. Ertu búinn að gefa grænt
ljós á þetta.
Vífill
Já, græn-leitt allavega. Hann veitt alveg hvað er í húfi og ég held að þetta komi ekki veg fyrir að
hann klári prófið í vor með sóma.
Elsa
Þessi próf upp í tónlistarskóla eru nú bara upp á pappírana það veistu vel Vífill. Þau eru formsatriði.
Hvað finnst þér um Sólrúnu.
Vífill
Ekki neitt, hef aldrei hitt hana. En Bergur er hrifinn af henni, það fer ekki milli mála.
Elsa
Já það er svo sem ekki neitt að segja við eðlilegri hormónastarfsemi.Þú kannast við það Vífill, væntanlega
úr fortíðinni þó.
Vífill
(Óöruggur
með sig)Og, og hvers vegna komstu svo hingað.
Elsa
Hvað, er eitthvað óeðlilegt að móðir nemanda komi til þess að ræða við kennarann. Ég vildi byrja á
því að þakka þér fyrir drenginn. Betra seint en aldrei. Og svo vildi ég ræða við þig um framtíð Bergs. því verður ekki á móti
mælt að þú hefur gert ýmislegt fyrir drenginn minn sem aldrei verður að fullu þakkað. Þú hefur verið örlátur á allt það sem
þú hafðir að gefa. Ég er ekki frá því að þú hafir líka gefið Bergi þá ást og athygli sem hvert barn gæti verið ánægt með að
fá frá föður sínum. Þú hefur gert hann að efnilegasta píanista sem þjóðin á og efni í mikinn listamann með því að miðla honum
lífspeki þinni og reynslu. Fyrir mína parta verð ég að viðurkenna að sumt af því sem Bergur hefur verið að hafa eftir þér
heima fyrir, hefði mér sjálfri ekki veitt af hér forðum. En við vitum að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. En
það er jú fortíðin Vifill. Hvað með framtíðina?
Vífill
(Fer að sýsla við nótur og taka þær saman.) Framtíðin
já? Bergi Fleygir fram. Aðal áhyggjumálið er að finna honum skóla við hæfi. Juliard kemur auðvitað sterklega til greina en
það er dýr skóli. Vín er líka alltaf inn í myndinni.
Elsa
(Hæðinn)
Já Vín.
Vífill.
Svo verður hann að ákveða hvort hann ætlar að fara út í tónsmíðar eða einleik. Hann gæti auðvitað hvorutveggja
ef hann kýs. En ég held að sem einleikari mundi hann enda uppi sem stjórnandi áður enn hann yrði fertugur. Hann hefur bæði
karakterinn og einurðina sem þarf til fleyta honum hvert sem hann óskar.
Elsa
Hann er eins og þú varst.
Vífill
Hugsaðu þér, tvö ár og hann er orðin betri píanóleikari en ég nokkru sinni var.Sólrún eða ekki Sólrún,
eins og er held ég að ekkert geti skaðað hann nema þá kannski þú eða ég.
Elsa
Hvað áttu við skaðað hann. Hvað ertu að gefa í skyn?
Vífill
Ekkert. Aðeins það að við stöndum honum næst og það sem við gerum hefur áhrif á hann. Ef hann er ástfanginn
er það gott. Hann þarf að fara í gegnum eldinn eins og aðrir. Ef þetta gengur ekki, hefur hann þroska til að takast á við
það, svo mikið er víst.
Elsa
Eldurinn já Vífill, við þekkjum eldinn ekki satt.
Vífill
(Hættir sýslinu)Jæja Elsa, allt í lagi.
Við skulum bara tala umbúðalaust. Bergur sagði mér frá samtölum ykkar um fortíð okkar. Hann vildi fá að vita hversvegna ég
sleit sambandinu við þig á sínum tíma. Hann sagði að það væri mér að kenna hversu erfiðlega þér hefur gengið að fóta þig í
lífinu. Ef svo er, var mér ekki kunnugt um það. Ég vissi bara að fljótlega eftir að ég fór, varstu komin með Anton aftur upp
á arminn og framtíðin virtist brosa við þér. Nú, svo fór ég til Vínar eins og til stóð.
Elsa
(Hlær hæðnislega) Já þú í Vín og ég í vínið.
Þú veist að Bergur heldur að þú sért faðir hans.
Vífill
Hvað áttu við.
Elsa
Hann segist geta lesið það út úr ýmsu því sem þú hefur bæði sagt og gert og ekki hvað síst út úr því
sem þú hefur látið ósagt og ógert.
Vífill
Þú hefur væntanlega getað sannfært hann um að svo er alls ekki.
Elsa
Ég reyndi, en ég er ekki viss um að það hafi tekist. Hann vill vera sonur þinn Vífill.
Vífill
En þú hlýtur nú að geta….
Elsa
(Grípur fram í fyrir Vifli mjög afslöppuð og mjúkmál,nánast kæruleysisleg)
Vífill minn. Hversvegna í fucking helvíti fórstu frá mér.
Vífill
(Horfir
á hana um stund þögull)Trúðu mér Elsa, ég gat ekki annað.
Elsa
Hvers vegna gastu ekki annað. Þú gast haldið áfram að vera hjá mér. Tvö ár við ylinn af eldinum, og
svo helhuldi. Veistu, ég er búinn að eyða ótöldum árum og shit-load af peningum í sálfræðinga til að átta mig á því hvenær
og hversvegna nákvæmlega þú ákvaðst að fara.Og ég er engu nær.Hvað gerði ég þér eiginlega. Hvað var að mér.
Vífill
Ég fór af því að ég gat ekki haldið áfram að elska þig á þann hátt sem ég gerði. Það var ekkert að
þínu fari eða gjörðum. Ástæðan var að ég skuli vera ég.
Elsa
Þvílíkt bull Vífill. Þú ættir að heyra í sjálfum þér. Því getur þú ekki bara viðurkennt að þú snyllingurinn,
heimspekingurinn og heimsmaðurinn, ákvaðst skyndilega að veran sem að féll fram að fótum þínum í lotningu, var ekki þess virði
að elska lengur. Þú hélst bara að þú elskaðir mig. Alla vega þegar þú varst að stinga undan Antoni. Beittir öllum brögðum
í bókinni til að ná mér frá honum þó þess þyrfti alls ekki við.
Vífill
Ég gerði mistök.
Elsa
Mistök. OK darling. Og þú villt ekki segja mér í hverju þau mistök eru fólgin. Mikið vona ég að Guð
sé til og í alvöru miskunsamur. Annars ert þú í slæmum málum.
Vífill
(Stekkur allt í einu upp og hleypur fram í eldhúsið og grípur með sér teketilinn)
Við ætluðum að fá okkur te, var það ekki..
Elsa
Ég held að ég láti það eiga sig að drekka te með þér. Ég er hætt að drekka með þrjótum.
Vífill
Þetta er alveg að koma. (Birtist með tekönnuna og bolla
og leggur hvorutveggja á borðið)Hvað varstu að segja?
Elsa
(Stendur upp og hneppir frá sér kápunni. Hún er nakin innan undir og
sýnir Vífli sjálfa sig.)Sérðu ástin mín ég hef lítið breyst.Þú varst vanur að segja að líkami minn fyllti þig af innblæstri.Eftir því sem
Bergur segir, veitti þér ekki af smá innblæstri til að klára eitthvað af þessum verkum þínum. Minnir þetta þig ekki á eitthvað?(Dansar fyrir hann nokkur spor)
Vífill
(Leggur rólega frá sér teið gengur að Elsu og hneppir að henni
kápunni)Þú ert fögur Elsa og munt ætíð vera fögur, allavega í mínum augum. En…
Elsa
En hvað. Ertu alveg dauður í öllum æðum maður (Hrifsar sig lausa og klárar sjálf að
hneppa kápunni)Það þurfti oft minna hérna áður fyrr til að koma þér til. Hvað er eiginlega langt síðan að þú hefur verið með kvennmanni.
Vífill
Hættu þessu Elsa, Hættu!
Elsa
Hætta hverju. Hér er ekkert að gerast.
Vífill
Þú,veist ekkert….
Elsa
Nei, þar rataðist þér satt orð á munn, ég
veit ekkert. Ekkert annað en að þú hefur falið þig í þögn og aðgerðarleysi gagnvart mér í öll þessi ár. Og á meðan hef ég
beðið eftir þér. Beðið eftir þér dauða-drukkin, beðið eftir þér með einhverja menn inn í mér sem ég vissi varla hvað hétu,
beðið eftir að þú kæmir til að halda áfram að byggja með mér Kamelot.
Vífill
Þú fórst þínar leiðir og ég mínar.
Elsa
Stundum hefur mér tekist að láta sem þú værir dauður, þá gekk
mér best. En það þurfti lítið til að minna mig á að það væri blekking. Allt
þar til fyrir tveimur árum varð ég að berjast gegn því á hverjum degi að grípa ekki til einhverra deyfilyfja til að geta afborið
raunveruleikann. Ég þoldi ekki við. Og svo þessi ákvörðun að senda þér Berg. Auðvitað vissi ég að Bergur var að fara í hundana
og trúðu mér, þú varst algjört neyðarbrauð, en samt vissi ég að þú varst sá eini sem gætir hjálpað. Oh djöfull hef hatað þig
Vífill. (Horfir á Vifil Þögul um stund) Segðu mér eitt, hvers konar maður
ertu eiginlega.
Vífill
Heldurðu ekki að ég mundi segja þér ástæðuna
ef ég gæti það.
Elsa
Hva, engar lærðar dæmisögur, engar viturlegar
ráðleggingar, ekkert. Þar kom að. Ég veit að ég hefði ekki átt að láta kynni mín af þér eyðileggja líf mitt Vífill. Ég veit
innst inni að þú ert ekki ábyrgur fyrir því hvernig mér líður. Ég er jú búin að liggja á bekknum í ótaldar klukkustundir.
En þrátt fyrir allt það get ég bara ekki skilið þessa sóun, sóun á ást og tíma. Hvers vegna fórstu, fyrirvaralaust og án nokkurra
útskýringa. Það var svo ólíkt þér. En nú sé ég að þér getur ekki hafa verið sjálfrátt. Þú hefur sturlast, hreinlega gengið
af vitinu. Nú sé ég hvernig þú hefur deyft þig fyrir umheiminum með því að sökkva þér ofaní tónlistina og ég skil að það sem
sumir tóku fyrir ríkidæmi tilfinninga í verkum þínum er aðeins tregi. – Mikið var gott að ég hafði mig loksins í það
að heimsækja þig. Sjá með eigin augum brjálun þína. – Mikið er gott að ég get farið núna og skilið ÞIG eftir.
(Elsa strunsar
út og Vífill situr eftir með andlitið í höndum sér)
Þriðji þáttur
Tveimur árum seinna í vinnustofu Vífils. Vífill situr við flygilinn
og starir út í loftið. Á borðinu standa veitingar. Bergur kemur inn ásamt Sólrúnu sem hann leiðir. Þau eru uppá búin.
Bergur
(Syngur) It´s gona be a party tonight, party
all night long..)
Vífill
(Byrjar að spila lagið á píanóið og trallar með og kallar svo) Hvar er mamma þín.
Sólrún
(Er byrjuð að dansa og svarar yfir tónlistina) Hún er á leiðinni Vífill.
Vífill
(Endar lagið með stæl og stendur upp) Hvert fór hún
Bergur
Hún sagðist þurfa að koma við í búð að kaupa you know what.(Þykist
vera að reykja)
Vífill
(Syngur) New York New York (Tekur upp dagblað) Eðvarð Finns heldur ekki vatni yfir frammistöðu þinni á depúteringunni í fyrradag.
Ég held að ég hafi bara ekki séð annað eins.
Sólrún
(Sposk) Hann
þorir ekki annað, vill ekki eiga á hættu að móðga þig.
Vífill
Hól er nú tvíeggja sverð. Eftir því sem það er hlaðnara því meiri verða væntingarnar til manns.
Bergur
Já ég las þetta nú. Þetta stendur nú ekki undir nafni sem gagnrýni. En hvaðan fékk hann allar þessar
upplýsingar um mig. Hann virðist vita meira um mig en ég sjálfur.
Vífill
Já já.(Les) Bergur er sonur Elsu Hermannsdóttur
sem löngu er landskunn fyrir undirleik sinn með öllum fremstu einsöngvurum landsins. Óhætt er að fullyrða að Bergur sé eitt
af þessum eplum sem ekki falla langt frá eikinni. Hann hefur undanfarin ár numið undir leiðsögn Vífils Bergmanns og tekið
undarverðum framförum á mjög skömmum tíma.
Bergur
Ég hef nú aldrei skilið hvers konar epli það eru sem vaxa á eikum.
Sólrún
Já, ég hef nú ekki einusinni pælt í þessu.
Vífill
Jæja, hér er allt klárt,nóg að drekka og snarla.Má ekki bjóða ykkur eitthvað.
Bergur
Þetta er aldeilis flott. Grafinn lax og súkkulaði hjúpuð jarðarber. Maður spyr ekki að því að þú ert
flottur þegar þú ert flottur Vífill.
Vífill
Það er nú orðið ansi langt síðan að ég hef haldið hóf hérna heima, hvað þá annarsstaðar. Held að ég
muni ekki hvenær það gerðist síðast.
Bergur
Láttu nú ekki svona. Þetta var nú engin smáveisla sem var haldin þegar að Simfónían frumflutti eftir
þig Draumasvítuna í fyrra. Forsetinn og allir mættir.
Sólrún
Það var nú veisla sem haldin var fyrir hann Bergur.Hann sjálfur kom ekkert nálægt….
Það
heyrist bankað á útidyrnar
Bergur
Þetta er örugglega mamma.
Vífill
(Fer til dyra og inn kemur Elsa) Jæja þá
eru allir mættir.
Elsa
(Elsa strunsar inn í stofuna, kastar af sér kápunni og sest í stól) Sælir krakkar, réttu mér eitthvað að drekka Solla mín. Jæja, er stuðið ekki
byrjað. Komdu og kisstu mig Bergur.(Bergur smellir kossi á kinn Elsu)Sæll
Ástin, rosalega eru menn flottir. Það var vel til fundið hjá þér Vífill að halda drengnum hóf og næstum fyrirsjáanlegt að
þú mundir vilja enda þessa kennslu með formlegum hætti. Mjög í karakter.
Sólrún
(Réttir Elsu glas með einhverju glæru)Vífill
var nú að spila rokk fyrir okkur áðan.
Elsa
Ummm sprite..Ég elska sprite
Vífill
Jæja má ekki bjóða ykkur eitthvað að borða. Þarna er sitt lítið af hverju og þið bjargið ykkur sjálf.
Endilega fáið ykkur bita.
Sólrún
(Fær sér eitthvað af borðinu)Vá þetta er
alveg æði hjá þér Vífill. Hvað er þetta?(Heldur uppi einhverju)
Vífill
Þetta er uxatunga með ólífufyllingu.Fann þetta upp sjálfur einu sinni.
Elsa
Ég man eftir því Vífill, gott ef ég hjálpaði þér ekki að saxa ólífurnar.
Vífill
Já,Það getur vel passað.
Bergur
Ehem.(Ber með teskeið í glas sitt og ber sig til með ýktum
virðulegheitum) Virðulegi Kennari, yndislega móðir og ástkær unnusta. Þar sem þetta litla boð er nú haldið í tilefni
þess að námi mínu er nú lokið undir leiðsögn míns ágæta kennara, langar mig við þetta tækifæri að segja örfá orð.(Lætur leikaraskapinn niður falla) Þegar ég kom hingað inn í fyrsta skipti var ég í vandræðum.Þegar ég fór héðan
út í fyrsta skipti voru vandræði mín enn meiri að mér fannst. Mér leið eins og ég hefði gert kaupmála við þig Vífill um sál
mína. Smám saman varð mér ljóst að í þessum mikla aga sem ég varð að lúta fólst líka frelsi mitt. Í dag rúmum fjórum árum
seinna, þegar leiðir okkar skilja, a.m.k. um skeið, finnst mér ég samt vera í meiri vandræðum en nokkru sinni fyrr. Í veganesti
hef ég ótæmandi sögur og sannindi sem hrotið hafa af vörum míns ástkæra kennara. Þú hefur kennt mér að umfram allt er nauðsynlegt
fyrir sannann listamann að finna og vera farvegur fyrir sannleikann.(Þögn) Það er hans vegna sem ég hef ákveðið
að staldra hér við. Ég mun ekki geta haldið áfram námi að svo búnu og takið þátt í því sem ég veit að er ein stór lygi.
(Þessum orðum Bergs fylgir grafarþögn. Vífill sest niður rólegur og
horfir fram fyrir sig. Elsa horfir glottandi á Berg. Sólrún styllir sér upp við hlið Bergs og tekur um hönd hans)
Sólrún
Haltu áfram ástin.
Bergur
Já lygi, stóru lyginni sem eitrar allt sem við þykjumst vera að gera. Ég veit fyrir víst Vífill, þó
engin hafi viljað segja það hreint út, að við erum nánari og skyldari en þú og mamma hafa viljað vera láta. Allir aðrir virðast
vita það. Mikið ertu líkur honum læriföður þínum. Það er svo sterkur svipur með ykkur Vifli. Þetta eru orðin sem dunið hafa
í mínum eyrum upp á síðkastið. Ég veit Vífill…… að þú ert faðir minn.Og ég veit líka að þú ert að láta þína eigin
drauma rætast í gegnum mig, soninn sem þú vegna einhverra furðulegra ástæðna villt ekki gangast við. Ég vil ekki, mun ekki,
halda áfram eins og ekkert sé án þess að þið bæði tvö viðurkennið þetta. Það eina sem ég skil ekki er af hverju það var svona
mikilvægt að leyna mig þessu. Vífill, pabbi. Hvað er svona hræðilegt við að eiga mig fyrir son.
(Þögn)
Elsa.
(Stendur upp hlægjandi) Jæja Vífill,
vefst þér þá tunga um tönn?
Vífill
Þetta,, þetta er einhver hræðilegur misskilningur...Þú ert ekki sonur minn Bergur.
Ég get fullvissað þig um...
Bergur
Er ég það ekki nei. Samt hrópar allt í kringum mig hið gagnstæða. Hvernig má það vera.
Vífill
Ég veit að ýmislegt gæti bent til að svo sé en svo er ekki. Það er sannleikurinn. Elsa...
Bergur
Jæja, komdu Sólrún. Við höfum ekkert meira hér að segja eða gera. Ég mun láta þá hjá Juliard vita að
ég mun ekki mæta til leiks í haust.
Vífill
Ætlaðrðu virkilega að henda öllu á glæ .........
Bergur
Vertu sæll Vífill (Gengur ásamt Sólrúnu að útidyrunum. Elsa
stendur upp og gerir sig líklega til að fara líka)
Vífill
(Berst greinilega við tilfinningar sínar)Bergur
ekki gera þetta. Þú mátt ekki láta þetta fara svona. Gott
og vel. Þá það. Bergur,Sólrún komið aftur og setjist niður. Bergur og Sólrún koma aftur inn og fá sér sæti. Elsa sest líka. Öll stara á Vífil.)
Elsa
Jæja Vífill, ertu þá loksins tilbúinn til að tala?
Vífill
(Ráfar um gólfiðí öngum sínum) Fyrir
18 árum rúmum, já daginn fyrir að ég stóð upp úr rúminu þínu og lét mig hverfa, fékk ég símtal. Það var frá Móður þinna Elsa
sem þá var orðin rúmföst heima hjá sér af krabbameininu sem dróg hana loks til dauða. Hún vildi umfram allt að ég kæmi að
hitta sig heima hjá sér þennann sama dag. Eins og þú veist, þekktumst við dálítið frá fyrri tíð þegar að hún var að syngja
með hljómsveitum á danstöðum hér og hvar um landið. Ég var stundum kallaður til sem lausamaður þegar einhver veiktist og kynntist
Freydísi þannig í gegn um spilamennskuna. Ég ók strax suðureftir. Hún sagði að Anton hefði komið að heimsækja sig nýverið
og sagt henni að þú værir farinn að dandalast með mér eins og hún orðaði það. Henni var greinilega ekki ljóst hversu alvarlegt
samband okkar var þegar orðið, enda þið tvær ekki í miklu sambandi eða nánu. Hún byrjaði á að rifja upp gamla tíma og fór
svo að tala um ákveðinn dansleik sem ég mundi takmarkað eftir. Auðvitað var þar ótæpilegt áfengi haft um hönd. Ég mundi samt
að við gistum öll saman á Hóteli þessa nótt, og þá nótt deildi Freydís rekkju með mér.
Elsa
Ó Guð (Elsa brestur í grát)
Vifill
Hún sagði að fáeinum dögum seinna hafi hún gert sér grein fyrir að hún væri ólétt.
Um sama leiti átti hún í stuttu ástarsambandi við bandaríkjamann og því hafi hún kennt honum barnið. Hún sagðist í fyrstu
aldrei hafa verið viss um hver var hinn raunverulegi faðir barnsins væri, og látið það liggja á milli hluta af ýmsum ástæðum.
En seinna hafi hún sannfærst um að það væri ég. Mér varð samstundis ljóst hvað þetta þýddi. Ég gerði mér grein fyrir ástæðu
þess sem ég hafði lengi vellt fyrir mér. Hvers vegna við drógumst svona hvert að öðru Elsa og urðum svona náin löngu áður
en að við hófum nokkuð sem talist gat kynferðislegt samband. Hún spurði einskis frekar og þegar að hún hafði sagt mér það
sem henni lá á hjarta, virtist áhugi hennar á frekari samræðum hverfa.
Elsa
En Vífill, Vífill.
Vífill
Já ég veit.
Elsa
Hvað hefur þú gert?
Vífill
Þegar ég kom til baka fór ég rakleiðis niður í Naust og drakk þar til staulaðist
heim til þín seint um kvöldið.
Elsa
Svafstu
virkilega hjá mér eftir að þú vissir að ég var dóttir þín.
Þögn
(Vífill hnýgur niður í sófann við hlið Elsu. Bergur og Sólrún ganga að flyglinum
setjast og Bergur byrjar að leika.)
Bergur
En, en hvers vegna sagði amma aldrei neitt við þig mamma.
Vífill
Ég hef oft spurt mig sömu spurningar. Stundum héllt ég jafnvel að hún hefði gert
það og þú Elsa vissir hvernig í öllu lá. Hún lifði jú í næstum ár eftir að þetta gerðist.
Elsa
En þetta getur ekki verið svona. Hún sagði aldrei hreint út að ég væri dóttir þín.
Vífill
Nei.
Ekki berum orðum, en ég vissi að það var þannig. Fann það í hverri taug.
Elsa
Og
ég sem héllt að ég væri búin að upplifa allan skallann. En þetta, þetta er eins og í bíó mynd. Hvernig á maður að bregðast
við svona löguðu.
(Snýr sér að Sólrúnu)Jæja Solla mín.
Finnst þér ekki lífið dásamlegt.
Það
er víst of seint fyrir mig að leita til kvennaathvarfsins er það ekki.
Bergur
(Gengur að teppinu á veggnum og slær á það)Það þarf heldur
betur að breyta teikningunum núna er ég hræddur um. Hefur þér ekki fundist þú hljóma soldið falskt á stundum. Stundum þegar
að ég var að tannbursta á mig fyrir framan spegilinn á kvöldin, sá ég þér bregða þar fyrir. Og nú veit ég hvers vegna.
Elsa
Þetta
getur einfaldlega ekki verið satt og ef það er satt ertu skrímsli Vífill. Hvers vegna sagðir þú aldrei neitt.
Fjórði þáttur
Vífill situr við flygilinn og spilar. Elsa kemur inn og heldur á bréfi.Vífill hættir að spila og gengur til Elsu.
Vífill
Jæja.
Elsa
Það
var að koma
Vífill
Ertu
búin að lesa það?
Elsa
Nei,
mér fannst að við ættum að gera það saman.
(Tekur béfið opnar það og þau lesa saman í hljóði. Horfast síðan í augu og fallast í faðma.)
Endir