Í GÓÐU JAFNVÆGI Bókmenntir Jón Özur Snorrason Svanur Gísli Þorkelsson Þyrnar og rósir.
Ljóðabók, 64 bls. Reykjavík, 1992. Ljóðabókin Þyrnar og rósir eftir Svan Gísla Þorkelsson inniheldur fjörutíu og fimm ljóð
og er þeim skipt niður í fimm kafla. Bókin ber ýmis merki þess að vera byrjendaverk en þau orð þarf þó ekki að skilja á neikvæðan
hátt. Miklu frekar má líta svo á að í ljóðum Svans sé sleginn dálítið sérstakur tónn sem einkennir stundum byrjendaverk höfunda
og er hvergi að finna annars staðar. Það er eins og skáldskapurinn sé að fæðast. Ljóðin hafa ekki öðlast fullan styrk en bera
það sterklega með sér að með sömu eða svipaðri tjáningu geta þau orðið meiri og dýpri skáldskap enda er ekkert verið að rembast
eins og rjúpan við staurinn heldur er ort af hæfilegri sannfæringu um sjálfan sig og tilveruna á einlægan hátt. Myndskreyting
bókarinnar er góð og í fullu samræmi við innihaldið en kannski fá sumar myndanna ekki að njóta sín til fulls. Hér er stuðlað
og rímað þegar það hentar og allt virðist vera í góðu jafnvægi. Reyndar má finna lengd ljóðabókarinnar. Eðlilegra hefði verið
að skera örlítið niður, birta kannski færri ljóð og vera gagnrýnni á hvað fer í bókina, enda getur ekki allt talist góður
skáldskapur.
Yrkisefni Svans eru maðurinn og náttúran. Hann dregur upp mynd af veröld þar sem flest
virðist í góðum höndum eins og lífið sé ein samstíga heild. Ekkert er manninum ómögulegt eða óviðkomandi enda er hann ennþá
hluti af náttúrunni. Kannski er hann kominn aftur að vitja um eitthvað sem hann áður þekkti. Þetta tvennt fellur saman, sólarupprás
verður að brúðkaupi og lífið birtist aftur í nýrri mynd. Eftirsjá eða söknuður er ekki ríkjandi, heldur það sem er höndlanlegt
og innan seilingar og gleði yfir góðum degi. Snjóblóm eru hluti af því:
Einhvers staðar
í hrjóstrinu,
á hörðu gráu grjótinu,
getur þú fundið þau
þar sem þau spretta án róta.
-
Þau heita kannski ekki neitt
en ég kalla þau
Snjóblóm.
Einhvern tíma
þegar síst varir,
rekst þú á svona blóm,
og þú veist
að þú hefur fundið
Snjóblóm.
Þetta sýnist ofurlítið barnslegt á yfirborðinu en undir niðri býr vitund um eitthvað
annað enda er veröldin brothætt. Það birtist líka í stílnum, í ljóðmálinu sjálfu og er gott samræmi milli þess sem sagt er
frá og hvernig það er sagt. Maðurinn býr yfir þeim eiginleikum að sakna þess sem var og dauðinn er hluti í þessu kerfi því
það sem deyr blundar aðeins og vaknar aftur til nýrra starfa. Í því er fólgið meginstef þessara ljóða. Myndmálið er einfalt
og býr þess vegna yfir einföldum galdri. Álfkonan vitnar um það:
Hún býr í hólnum
hólnum græna
utan við garð.
Hún er fögur,
blá og vitur,
og vitjar manns.
Svanur Gísli fer hér vel af stað í flestum ljóðum sínum. Bók hans myndar samt sem áður
ekki nógu góða heild. Það hefði mátt klippa nokkrar blaðsíður aftan af henni því í lokin flækir hann mál sitt dálítið en honum
hæfir best að yrkja á einföldu máli.
Slóð: http://www.mbl.is//mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=97884
Skoðað: 2006-03-30
06:05
© mbl.is/Árvakur hf