Eftir Jón Hafstein Sigurmundsson
Þorlákshöfn | "Mig hefur dreymt um að leika
síðan ég var í leiklist í skóla," sagði Ásta Margrét Grétarsdóttir, ein þeirra sem var hvatamaður að annarri endurvakningu
Leikfélags Þorlákshafnar. Félagið heitir raunar Leikfélag Ölfuss að þessu sinni.
Ásta sagði að það hefði verið draumur sinn eins og margra annarra barna að verða stjarna
á sviðinu og standa frammi fyrir hópi aðdáanda. "Ég sá tækifærið opnast þegar Ráðhús Ölfuss var tekið í notkun með stóru og
glæsilegu sviði. Ég get örugglega ekkert leikið en það skiptir ekki öllu máli heldur hitt að hafa gaman af þessu og vera innan
um skemmtilegt fólk. Svo er þetta örugglega þroskandi."
Ásta sagði að hún, Árný Leifsdóttir og Róbert Dan Bergmundsson hefðu komið saman í
haust og rætt við menningarfulltrúa Ölfuss sem tók þeim mjög vel, hvatti þau og studdi við að koma félaginu á koppinn. Meira
að segja hefðu þau fengið 300 þúsund kr. styrk úr menningarsjóði. "Boltinn var fljótur að bæta utan á sig og áður en við vissum
af voru komnir upp undir þrjátíu félagar, frá átta ára til sextugs, og starfsemin á fullu. Það eru ekki allir að leika, það
þarf svo margt annað að gera, sauma búninga og leiktjöld, sjá um ljósin og svo erum við komin með hljómsveit því nú stendur
til að frumsýna 9. mars. Við erum að æfa söngleik um hippatímabilið sem er heimasmíðaður af leikstjóranum okkar, Svani Gísla
Þorkelssyni, og leikurunum sjálfum," sagði Ásta Margrét".
Formaður leikfélags Ölfuss er Jóhanna Sigríður Emilsdóttir.
Þriðjudaginn 28. mars, 2006 - Leiklist
LEIKLIST - Leikfélag Ölfuss
Leikur að vonum í Þorlákshöfn
Ég elska alla Söngleikur
Höfundur handrits og leikstjóri: Svanur
Gísli Þorkelsson. Tónlistarstjóri: Róbert Dan Bergmundsson. Sýning í Ráðhúsi Ölfuss kl. 16.00 19. mars 2006.
SÖNGLEIKURINN Ég elska alla er fyrsta verkefni
hins nýja leikfélags Ölfusbúa sem stofnað var á gömlum grunni Leikfélags Þorlákshafnar. Að fyrstu uppsetningunni koma um það
bil þrjátíu manns á aldrinum 7-60 ára svo það má gera ráð fyrir að þræðirnir komi víða að úr sveitarfélaginu. Friður á jörðu,
blóm og ást eru viðfangsefnið; vinsæl hippatónlist sem er tengd saman með skondnum persónum og textabrotum án eiginlegs söguþráðar
og úr verður prýðilegasta skemmtun.
Hljómsveitin Síðasti séns var á sviðinu og lék smelli hippatímabilsins, ýmist undir
söng eða án söngs. Hljómsveitin var hluti af sviðssetningunni þegar persónurnar voru staðsettar á balli og þess vegna úr stíl
að hljóðfæraleikararnir skyldu ekki vera í búningum tímabilsins. Hvað sem því líður var tónlistin og söngurinn fagmannlega
flutt, sérstaklega miðað við reynsluleysi söngvaranna. Sömu sögu er að segja um leikinn; næstum allir voru að leika í fyrsta
sinn og fær leikstjórinn hrós fyrir hópatriðin ásamt því að smíða svo stórt verkefni en hann er áhugamaður í leikstjórn með
nokkurn skáldferil. Sýningin bar dálítil merki hægagangs á köflum en um einhverja sunnudagsþreytu var að ræða. Mörg ung börn
horfðu á sýninguna en því miður trufluðu þau áhorfendur og væntanlega leikendur líka. Nokkrar persónur skáru sig úr. Fyrsta
skal telja hippamömmuna sem Þrúður Sigurðar lék sífulla og kærulausa. Einnig var Ásta Margrét Grétarsdóttir góð í hlutverki
Dúu gömlu, hún kunni að ná athygli áhorfenda með kómískum töktum. Daníel Haukur Arnarsson var einnig efnilegur í hlutverki
Jóa töff.
Sviðið var ekki eiginlegt leiksvið, mjög grunnt og breitt. Sýningin er unnin af litlum
efnum og góðar, einfaldar lausnir þess vegna notaðar eins og marglit tjöld í bakgrunninum. Stundum var komið inn með sófa,
stóla og borð til þess að sýna mismunandi heimili en það hefði nægt að nota púða og teppi eða litla kolla sem hluta fyrir
heild þar sem leikmyndin var ekki natúralísk að öðru leyti. Búningarnir voru kapítuli út af fyrir sig og merkilegt hvað hægt
er að safna saman miklu frá hinu litríka blómatímabili í tískunni.
Söngleikurinn Ég elska alla er fjörugur, lagavalið gott og tónlistin vel flutt. Þeir
áhorfendur sem hlustuðu á tónlist tímabilsins í blómabuxum og mussum á sínum tíma eiga að geta skemmt sér vel og væntanlega
hinir líka.
Hrund Ólafsdóttir