Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

Stóra málið

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND

valdiogmarg.jpg
Margrét Ákadóttir og Valdimar Örn Flygenring

Laugardaginn 3. apríl, 2004 - Leiklist

LEIKLIST - Höfundaleikhús Dramasmiðjunnar í Iðnó

valdimag.jpg
Höfundur ásamt leikurum

Tilgangur lífsins

STÓRA MÁLIÐ

Höfundur: Svanur Gísli Þorkelsson. Leikstjóri: Darren Foreman. Leikmyndar- og búningahönnun: Rebekka A. Ingimundardóttir. Leikarar: Margrét Ákadóttir og Valdimar Örn Flygenring. Laugardagur 13. mars.

STÓRA málið er afrakstur höfundaleikhúss Dramasmiðjunnar sem Hlín Agnarsdóttir og Margrét Ákadóttir hafa komið á fót og reka með miklum myndarskap. Þetta er nýr vettvangur fyrir þá einstaklinga sem ganga með leikskáld í maganum og þær stöllur munu ásamt fleirum leitast við að gera fæðingarhríðarnar sem sársaukalausastar og fæðinguna eins farsæla og þeim frekast er unnt. Þær stöllur kynna hér annað afkvæmið sem fæðist innan veggja stofnunarinnar og fyrsta leikverk Svans Gísla Þorkelssonar sem flutt er af atvinnuleikurum a.m.k..

Umgjörð leiksins er sáraeinföld: "Hún" situr á bekk, "hann" kemur aðvífandi og fitjar upp á samræðum. "Hann" stýrir samræðunum, hefur máls á umræðuefninu, sækir á "hana". Darren Foreman, sem er leikstjóri verksins, lætur þessa staðreynd endurspeglast í stöðum leikaranna og látbragði. Þar af leiðir að "hann" situr sjaldnast kyrr heldur hreyfir sig á bekknum, stjáklar í kringum hann og lætur augu áhorfenda fylgja sér. "Hún" situr sem fastast og heldur dauðahaldi í veskið sitt, hlustar á "hann" með athygli og leggur sitt til málanna enda snýst umræðan um hennar persónu og tilganginn í hennar lífi. Allt var þetta í miklu hófi og það tókst jafnt í texta sem leik að forðast alla tilgerð sem hefði borið efniviðinn og einfalt formið ofurliði. Valdimar Flygenring sýndi fjölbreytta takta sem "hann" og náði auðveldlega að vera hófstilltur og sannfærandi í hlutverki sem minnsti vottur um ofleik hefði eyðilagt. Margrét Ákadóttir sýndi framúrskarandi leik sem "hún", enda virðist hlutverkið klæðskerasniðið fyrir hana og kerlingin eins og snýtt út úr nösinni á henni.

Höfundurinn hefur fengist við ritsmíðar í nokkur ár og hefur auk greina og smásagna í tímaritum og blöðum sent frá sér ljóðabókina Þyrna og rósir sem út kom 1992. Auk náms síns í Dramasmiðjunni hefur hann sótt námskeið um leikritun sem haldin hafa verið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og Þjóðleikhússins. Einbeittur vilji hans til að ná tökum á forminu er greinilegur en umfram allt er kveikjan að skrifum hans brennandi þörf til að tjá sig innan þessa listforms. Hann hefur starfað með áhugaleikfélögum í Vestmannaeyjum og á Selfossi og m.a. tekið að sér leikstjórn hjá því síðarnefnda.

Eins og fleiri höfundar sem hafa spreytt sig á ljóðforminu hefur Svanur orðið sér meðvitandi um hve mikilvægt er að málsniðið sem valið sé hæfi efninu. Auk þess notar höfundur á stundum ákveðna ljóðrænu til að sveipa textann ákveðinni dulúð og hefja hann upp úr flatneskju daglegs orðfæris.

Umræðuefni persónanna er athyglisverðasti þáttur sýningarinnar. Í fljótu bragði koma ekki margir íslenskir höfundar upp í hugann sem hafa byggt leikverk sín upp á jafn beinskeyttri umræðu um tilgang veru okkar hér á jörð. Einar Kvaran er náttúrlega helst tengdur þessu efni og e.t.v. mætti finna í einstaka verki Guðmundar Kamban dæmi um að höfundur tjái sig um þetta efni jafn blátt áfram og Svanur Gísli Þorkelsson gerir hér.

En Svanur er nútímamaður og hvað stílinn varðar er hann víðs fjarri þeim upphafna stíl sem einkennir eilífðarmálaumræðu Einars Kvaran. Það er ánægjulegt að nýtt leikskáld sýni hve gott vald hann hefur á málinu og að hann geti byggt upp umræðu um jafn viðkvæm efni eins listilega og hér er sýnt og það án allrar væmni. Einföld bygging þessa einþáttungs hæfir vel skýrt afmörkuðu efninu. Höfundur skilar hugmyndinni fullfrágenginni og í lokin útræddri. Gagnrýnandinn hverfur á braut með það sterklega á tilfinningunni að hann hafi upplifað þá sjaldgæfu sálarhreinsun sem grísku leikskáldin stefndu að. Er hægt að fara fram á meira?

Sveinn Haraldsson