Svanur Gísli Þorkelsson - Heimasíða

Saga úr dýragarðinum

HEIMASÍÐA
UM MIG
Áhugamál
Leikrit
Smásögur
LJÓÐ
Greinar
The Icelandic Conection
HAFÐU SAMBAND

Þriðjudaginn 23. apríl, 1996 - Leiklist

Vinur í hundslíki

Bíóleikhúsið, Selfossi SAGA ÚR DÝRAGARÐINUM

LEIKLIST

Bíóleikhúsið, Selfossi

SAGA ÚR DÝRAGARÐINUM

eftir Edward Albee. Leikstjóri: Svanur Gísli Þorkelsson Sviðs- og tæknimaður: Sigtryggur B. Kristinsson Leikendur: Davíð Kristjánsson, Kristinn Pálmason Leikfélagi Selfoss, frumsýning, 19. apríl.

2641860.jpg

ÍSLENDINGAR virðast ekki óttast Edward Albee þessa dagana. Verk eftir hann eru á svölunum bæði í Reykjavík og á Selfossi. Í þeim er að finna erfiðar rullur fyrir þá leikara sem eru óragir við að færast mikið í fang og vilja annaðhvort sýna snilli sína eða vaxa við raunina. Mig grunar að hið síðarnefnda eigi við um Davíð Kristjánsson í hlutverki Jerrys hér. Davíð hefur sýnt það undanfarin ár að mikils má af honum vænta sem leikara og hann hefur verið óragur við að takast á við þung verkefni. Þó verður að segja að hér hefur hann ekki erindi sem erfiði. Lítum stuttlega á söguna:

Menntamaður situr á bekk í Miðgarði í New Yorkborg og ætlar að líta í bók. En Jerry, stráksláni sem er nýkominn úr dýragarðinum og hefur að eigin sögn framið þar eitthvert óhæfuverk, sest að honum svo friðurinn er úti. Í meðförum Davíðs verður Jerry, sem er kominn á ystu nöf í mannlegum samskiptum og jafnvel fram af henni, að ósköp venjulegum, örlítið ráðvilltum pilti með hendur í vösum og heimspekilegt viðhorf.

Sá sem setið hefur á bekk í Miðgarði og verið ávarpaður á ögrandi hátt á von á hinu versta. Af Jerry í meðförum Davíðs stafar engin ógn, hann er jafnvel kumpánlegur á stundum, jafnlyndur og allt að því æðrulaus fram að hinstu stundu. Jerry gengur hinsvegar ekki mjúklega inn í nóttina. Hann spyrnir ærlega við fótum þegar stórborgarfirringin strípar hann af þeirri sáluhjálp sem felst í samneyti við annað fólk. Strípar hann jafnvel af vinfengi við hunda. Þá var framsögn Davíðs áfátt á stundum.

Kristinn Pálmason leikur menntamanninn á bekknum og ferst það vel úr hendi ef frá er talið lokaatriðið en þar falla leikararnir báðir í þá gildru að ofleika og verða farsakenndir. Þess vegna missir örvæntingin, óttinn og reitarhelgunin í verkinu marks og verður í besta lagi að gremjufyndni, í versta lagi skrípaleg.

Þeir félagar kalla framtak sitt Bíóleikhúsið til styrktar þeirri tillögu að leikstarfsemi á Selfossi fái inni í ókláruðum bíósal staðarins. Það er svo sannarlega verðugt markmið, ekki einungis fyrir þá, heldur fyrir alla þá mörgu félaga þeirra í Leikfélagi Selfoss sem á undanförnum árum hafa auðgað menningarlíf Sunnlendinga svo um munar.

Guðbrandur Gíslason